Verbum perfectum: sinceritas IV

Það er nú líklega eðlilegt að undirstrika að þessi pistlaskrif mín eru einfaldlega aðferð til að halda einhverskonar hringrás hugans í gangi. Talið er holt fyrir fólk að tjá sig og koma frá sér á einhvern hátt hugsun og vangaveltum sem kunna að auka þrýsting í kollinum á því. Býst ég við að þetta sé nytsamlegt fyrir okkur sem hætt hafa störfum og samskipti og félagsskapur fallið í lágmark.

Má þá segja að pistlaskrifin séu einskonar sjálfshjálpartilburðir en slíkir eru í hávegum þessi misserin eins og lesendur vita. Álykta má að tvennskonar ávinningur hljótist af tilburðunum hið minnsta: A: Eiginkonan þarf ekki að sitja eins lengi undir sjálfsvorkunnarvæli makans. B: Pistlahöfundur getur talið sér trú um að hann sé „að tína saman grjót og bera sig að gelda ögn upp í veggina.“ Eins og segir á frægri bók.

En við vorum þar stödd, í Verbum sinceritas, sem Toklas var að væflast með hvað hún ætti að elda handa Picasso sem var í megrun. Það voru fleiri listmálarar en Picasso sem voru heimagangar hjá miss Stein. Í ævisögu Alice B. Toklas er sagt frá fjöldanum öllum af impressionistum sem flestir eru í dag frægir menn og sígildir og myndir þeirra metnar á stjarnfræðilegar upphæðir. Nöfn sem allir kannast við, hafa lesið um, séð myndir eftir á söfnum og eða bókum.

Ungfrú Alice B. Toklas lét Gertrude Stein umbylta lífi sínu þegar Stein kom í heimsókn til fjölkyldu hennar í San Fransiskó skömmu eftir eldana miklu: „Frú Stein hafði með sér þrjár litlar Matisse teikningar, fyrstu nútímamyndirnar sem komu yfir Atlandshafið. […] og hún sýndi mér myndirnar og sagði mér margar sögur úr lífi sínu í París. Innan árs var ég komin til Parísar. Þar fór ég að hitta Mrs Stein […].“

Og hún heldur áfram: „Ég myndi segja að aðeins þrisvar á ævinni hafi ég hitt afburða snillinga (genius) og í hvert sinn hringdi bjalla inni í mér og mér skjátlaðist ekki […] það var áður en þau höfðu hlotið almenna viðurkenningu fyrir snilligáfu. Þessir þrír snillingar […] eru Gertrude Stein, Pablo Picasso og Alfred Whitehead. Ég hef hitt margt mikilvægt fólk, ég hef hitt frábært fólk en ég hef aðeins hitt þrjá afburða snillinga […] . Á þennan hátt hófst mitt nýja fullkomna líf. […] Þetta var árið 1907.“

Ástarsamband ungfrú Alice B. Toklas og Gertrude Stein var ævisamband. Hemingway lýsir þeim svo: „Miss Stein var boldangskvenmaður þó hún væri ekki há í loftinu, og luraleg einsog sveitakona. […] Hún lét dæluna ganga í belg og biðu […] Lagskona hennar hafði ógn viðkunnanlega rödd, lítil kona vexti, mjög dökkhærð og klippti sig svipað og mærin af Orelans […].“

Meira fljótlega
Ath. Það hefur hamlað myndainnsetningu með pistlunum að heimasíðan er komin hálfa leið í andlitslyftingu og innvolsið í henni ekki að fullu starfhæft. Þá hefur beinagrindin látið nokkuð að sér kveða síðustu daga. Skömmin á henni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.