GUÐI TIL DÝRÐAR, SAGÐI BACH.

Fyrst og fremst þakka ég Guði. Guði föður á himninum. Hann gaf son sinn Jesúm Krist mönnum. Þá þakka ég Kristi. Af einlægu heilu hjarta fyrir hans óendanlegu mannelsku. Mannelskandi anda. Anda sem leysti mig. Frelsaði mig. Þar næst þakka ég söfnuðinum í Kirkjulækjarkoti fyrir að taka á móti mér, löskuðum, með sundur kramið hjarta.

Í Kotinu tóku þeir á móti mér feðgarnir Guðni Markússon, Guðni Guðnason, Grétar Guðnason og Magnús Guðnason. Að baki þeim stóðu konur þeirra, Ingigerður, Jónína, Þóra og Hrefna. Mannelskandi andi þeirra allra umvafði mig. Andi Jesú Krists. Og þeir töluðu um frelsarann eins og hann væri þarna hjá okkur. Allt var það tal mjúklegt. Allt var það tal græðandi. Jesús, sögðu þeir, og lögðu hendur yfir mig. Jesús, miskunna þú.

Í samkomuhúsinu þeirra, á næstu dögum, töluðu þeir um Jesúm. Þar var enginn Lúter, engin háskóla guðfræði, aðeins Jesús frá Nasaret. Það lét sérkennilega í eyrum. Tók vikur að sættast við nýtt tungutak. Keppt var að frelsun. Jesús er frelsari. Fyrirgefur og frelsar. Eftir samkomur var boðið í kaffi í hús Guðna yngri. Jóna kona hans þjónaði til borðs. Samræður allar fóru fram eins og Jesús sæti einnig við borðið. Það var einlægt. Trú þeirra og einlægni hrifu.

Alltaf var frú Ásta með mér. Hélt í hendi mína og studdi mig. Alltaf. Nokkrum vikum síðar, eftir samræður og samkomur, samkomur þar sem sungið var um hinn Eldgamla kross, BrunnInn blóðs og prédikað frá Jesaja: ,,Komið, eigumst lög við, segir Drottinn. Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll…“ Og Sigurmundur Einarsson, eldri, bættist í hópinn. Við áttumst lög við. Ég tuðaði við hann af afli. Þetta voru magnaðir tímar. Ég andæfði. Beitti fyrir mig rifhöfundunum mínum. Kaldhæðni. Þessum svokölluðu gáfum manna.

En guðspjöllin miða ekki á gáfur manna. Ritningin miðar á hina lægra settu, hina auðmjúku, hina brotnu. Til að frelsa þá. Og eftir þras við Sigurmund nokkrar vikur spurði ég hann í drambi mínu: ,,Getur Guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum sjálfur.“ Eftir umhugsun svaraði Sigurmundur : ,,Þessu get ég ekki svarað.“ Það var þá sem ég tók ofan og beygði mig. Við krupum. Tveir. Sigurmundur sagði: ,,Fyrst bið ég, svo tekur þú við.“ Þetta var ekki auðvelt. Biðja upphátt við annan mann. En mér tókst það eftir talsvert hik og baráttu.

Þetta var ógurleg stund. Undursamleg og ógurleg stund. Andinn fyllti mig. Allt mitt innra braust út. Ég skalf og nötraði og hrópaði og kveinaði. Og múrinn brast. ,,Jesús minn, Jesús minn, Jesús, Jesús Kristur, miskunnaðu mér.“ Líf mitt hefur ekki verið samt síðan.

Og í dag er Hvítasunnudagur. Sú blessaða andlega hátíð. Þegar andinn fyllti hjörtu lærisveinanna.

Skrifað Guði til dýrðar.

ER SVÍNAKJÖT Í ÞESSU?

Við fórum í lítilsháttar bíltúr í morgun, hjónin. Áttum eitt erindi. Sinntum þrem. Frú Ásta ók eins og oftast síðari árin. Mér gafst því góður tími til að skima og skoða. Þögul ókum við Sæbraut, fram hjá Hörpu og því næst í gegnum ljótasta hluta borgarinnar, ég endurtek, ljótasta hluta borgarinna og varð að orði. „Fullþroskaður ljótleiki. Verr verður ekki gert.“ En nú
snýst heili ráðamanna um bragga í Skerjafirði.

Lesa áfram„ER SVÍNAKJÖT Í ÞESSU?“

STERKUR KRYDDILMUR Í LOFTINU

Leigubíllinn hafði bara ekið með okkur tvær þrjár mínútur þegar hann stoppaði og tók unga konu upp í. Ég skildi ekkert hvað bílstjórinn sagði. Hann ók konunni að húsi við hliðargötu í bænum. Litlu síðar stoppaði hann aftur og fór inn í hús. Við biðum í bílnum. Þegar hann kom til baka skildist mér á honum að hann hefði farið í kaffi. Eftir það ók hann svo upp fjallið og að klaustrinu þar sem við borguðum og hann fór til baka.

Lesa áfram„STERKUR KRYDDILMUR Í LOFTINU“

HVAÐ ER HEIM?

Vinur minn á Fésinu, Jónatan Hermannsson, skrifar fallega og tregablandna hugleiðingu á síðu sína í morgun. Í framhaldi af henni rifjaðist upp fyrir mér atvik í Lyfjaveri í síðustu viku. Við vorum þarna nokkrir gamlir karlar og líklega tvær konur á miðjum aldri.

Lesa áfram„HVAÐ ER HEIM?“

Það sem skiptir mestu máli.

Það komst einhver vísindanefnd að því fyrir skömmu að því fleiri afmælisdaga sem fólk ætti því eldra yrði það. Og sem einn af þessu gamla fólki lifði ég einn afmælisdaginn í gær. Fékk einhver býsn af fallegum kveðjum hér á Fésinu og þakka ég einlæglega fyrir þær. Það er nefnilega svo að þær ylja verulega lúnum hjörtum.

Jam Session

Við gengum niður eftir strætinu. Komum að lítilli auglýsingu í glerskáp. Það var jam session. Við litum inn af rælni. Fremur lítill salur. Talsvert af fólki og hljómsveit að koma sér fyrir á palli. Meðlimir hljómsveitarinnar í sínum daglegu jakkafötum, fólk um fertugt, fimmtugt, hversdagslegt og tilgerðarlaust. Þau stilltu hljóðfærin. Stemningin vafðist um okkur og við tókum sæti. Setið var við flest borð. Sumir, heimamenn, nikkuðu til okkar. Meðalaldur yfir fimmtugu. Kannski voru allir heimamenn.

Lesa áfram„Jam Session“

Snittubrauð

Það er sáraeinfalt erindi að fara í bakarí. Það vita flestir. Ég hafði áætlað að elda súpu með humri sem okkur var gefin. Og fór í bakarí til að kaupa snittubrauð. Þar var ös. Í biðröðinni skimaði ég um. Kaffihorn er þarna og sátu þar tíu karlar við borð og ræddu málin. Ábúðarmiklir menn. Flestir yngri en ég

Lesa áfram„Snittubrauð“