VERKAMAÐUR GREFUR BRUNN

Á  dögum Abrahams grófu menn brunna. Vatnsbrunna og viskubrunna. Svo liðu aldir. Þales,  Sókrates, Plato og Aristoteles og fleiri. Í röðum, löngu fyrir okkar tímatal og áfram eftir það.

Hver með sína speki, hver með sína brunna. Því að fyrst er spýta og svo er spýta og svo er spýta í kross. Og þá fer allt að snúast.

Plotinus, 2oo árum eftir Krist,  sýnist vilja gera að jöfnu fegurðina og Góðið sjálft. Ekki er auðvelt að vera honum sammála um það. Plato, 600 árum áður, hafnaði fegurðunni fyrir Góðið.

Hann hélt kveðjuhóf og brenndi bækur sínar, leikrit og ljóð og kvaddi vini sína og fyrra líf. Hann hafði hitt Sókrates og heyrt á tal hans um viskuna og elskuna og ákvað að helga sig þeirri speki og lífsformi hennar.

Mannelskandi andi er eitt af dýrmætustu hugtökum mannamáls. Mannelskandi andi. „Guð er andi…“ Þetta orðalag, mannelskandi andi, er miklu stærra og víðfeðmara en virðist við fyrstu sýn. Í nútímanum er ekki mikið rými fyrir það.

Mynd eftir Gustave Doré í Gleðileik Dantes, kemur í hugann, þar sem skipsmenn stjaka fjölda fólks sem svamlar í hafinu kringum bátinn og reynir að komast um borð, er ýtt á kaf og drekkt.

Góðið sjálft. Aldrei hefur mér þótt orðið kærleikur lýsa elskunni sem í þeirri hugsun býr. Ástríðufull elska, „hörð eins og hel,“ hefur ekki orð á íslensku yfir þá tegund elsku sem þessir stórkostlegu hugsuðir komust að niðurstöðu um og seinna Jesús Kristur sem lifði og boðaði og gaf líf sitt fyrir til að birta mannkyni og opna því leið, opna því veg.

Hvernig svo sem litið er á söguna, þá jafnast ekkert á við komu Krists og erindis hans til mannkyns. Ekkert. Samt á kristni ekki upp á pallborðið hjá nútímanum. Í nafni nútímaþekkingar æsa allskyns trúðar sig upp og krefjast þess að kristni sé jaðarsett.

Að Góðinu sjálfu, mannelskandi andanum, sé úthýst svo að kaldlyndu öflin, völd og græðgi, nái tökum um víða veröld.  Sjálfi, egói og yfirsjálfi til fullnægingar. Á kostnað annarra. Að sjálfsögðu. Á kostnað annarra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.