Verkamaður grefur brunn  III

Orð Krists eru ólík orðum faríseana á hans tíð. Hann sagði við gestgjafa sinn: „Þegar þú gerir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér….“ Lk.14.

Og farísearnir sögðu hneykslaðir: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“

Drepum svo niður í bók Walt Whitmans, Söngurinn um sjálfan mig. Þar segir í kafla 19, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar:

„Hér stendur borðið dúkað, málsverður handa öllum sem svelta, / Hann er handa ranglátum jafnt og réttlátum, ég á stefnumót við alla, / Ég læt ekki vanvirða neinn eða skilja útundan, / Frillan, afætan, þjófurinn eru hérmeð boðin, / Varaþykkur þrællinn er boðinn, sýfilissjúklingurinn er boðinn; Engan greinarmun skal gera á þeim og öllum hinum.“

Það hefur um langt árabil læðst að mér sú hugsun að Páll postuli hafi ekki skrifað sálminn í 1.kor.13, þar sem segir svo undur fallega um kærleikann;

„Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt, og kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ Svo endar þessi sígildi mannelskunnar sálmur: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“

Það sem truflar mig er að hér eru þessi yndislegu orð um kærleikann, „hann umber allt.“ En Páll postuli umber ekki allt. Hann segir margt grimmt um fólk, hvetur til þess að trúaðir haldi sig frá ýmiskonar syndurum sem séu óværa í mannkyni.

Ég spurði eitt sinn doktor í guðfræði hvort svo gæti verið að Páll hafi ekki skrifað ljóðið. Hann svaraði að bragði: „Ekki hef ég lesið neitt um það.“

En huggun okkar smælingjanna felst í því að kærleikurinn umber allt. Elskan umber allt. Og Jesús Kristur býður öllum til veislunnar.

„Guð er kærleikur. Guð er elska. Guð er andi.“

Er það ekki undursamlegt? Jesús Kristur og hans mannelskandi andi. Góðið sjálft. Það sem spekingar aldanna hafa fundið og margir sett efst í niðurstöðum sínum.