IÐRUN OG GRÁSTAFIR

Litla svarta bókin, Allir heimsins morgnar, áttatíu síður, gefin út af Máli og menningu 1992 í flokki Syrtlna. Hún hefur verið í uppáhaldi hjá mér allar götur síðan og ég les hana einu sinni ári. Lauk við hana í gærkvöldi. Þetta er mögnuð bók.

Undir lok bókarinnar hittast þeir tónlistarsnillingarnir  og eiga samtal um tónlist. Sá gamli spyr þann yngri:„Hvers leitið þér, herra minn, í tónlistinni?“„Ég leita iðrunar og grátstafa,“ svaraði sá yngri.Þá bauð sá gamli hinum að gera svo vel að koma inn í kofann. Litlu síðar léku þeir saman tónverkið Grátstafinn. Hvor á sína gömbu. Þegar gömburnar tvær tóku að hljóma, horfðu þeir hvor á annan. Þeir grétu. Höfðu fundið hinn eina sanna tón.

Orðin iðrun og grátstafir gripu hug minn þegar ég las bókina í fyrsta sinn. Ég tengdi þau trúarreynslu minni. Iðrun og grátstafir.

Fyrir allmörgum árum heimsóttum við frú Ásta Jerúsalem. Við vorum á eigin vegum. Einn daginn  komum við að Grátmúrnum. Þar var margmenni. Fólk af ótal þjóðerni og hópar með leiðsögu. Við gengum nær Grátmúrnum og mér varð starsýnt á Faríseana sem réru sér með andlitið upp við múrinn. Þennan háa, gula múr.

Allir voru þeir svartklæddir. Allir með hatt. Sumir með lágan hatt, aðrir með háan hatt og mismunandi börð. Þá voru þeir allir með davíðslokka á kinnum. Fullvissir um að þeir væru miklu betri en aðrir menn. Sjálfsánægðir og sjálfsréttlátir, stífir af Móselögum og reglum. 614 reglum. Jafnvel 61

Þarna var engin kona iðrandi, hnípin, kramin. Engin karl kveinandi og hrópandi og engin Jesús Kristur.  

ANTÓNÍUS

Hann var einsetumaður. Varð 105 ára gamall. Dó árið 300 eftir Krist. Hann var kristinn maður. Lifði trú sinni. Frásögnin af bókinni um líf hans hreif mig.

Hvað skyldi það nú vera sem hrífur við lestur um mann eins og Antóníus? Jú, það er sú hamingja og lífsfylling af trú á Guð sem líf hans mótaðist af. Lífsfylling. Það sem allir menn leita eftir. Og flestir leita annarsstaðar en í trú á himneskan föður. Trú á frelsarann Jesúm frá Nasaret.

Antóníus er sagður hafa verið einsetumaður. Heimsflóttamaður. Hvað er heimsflótti? Munkar og nunnur sem lifa í klaustrum eru gjarnan sögð heimsflóttafólk. Flóttafólk? Þar er ég ekki endilega sammála.

Ef litið er á heimsmyndina eins og hún er í dag, þá er ekki margt sem fær hjarta fólks til að gleðjast yfir. Um víða veröld er verið að drepa heilu þjóðirnar, kremja þær. Venjulegt fólk og börnin þess. Og aðrir hamast í ofsaveðri fjármagnsgræðgi og kaupæði þar sem fátt veitir lífsfyllingu.

Lífsfyllingu. Innri frið og kyrrð. Þá má segja sem svo að það sé varla mikil lífsfylling í þessu óveðri sem leiðtogar þjóða hafa komið á. Og almenningur á ekki um annað að velja en fylgja því ómannúðlega kerfi.

Þá er gott að geta farið í skjól. Skjól.

Þannig var þetta á dögum Antóníusar. Þannig er þetta enn í dag. Og sjaldan svakalegra en nú.

Og í ánægju minni með kynni af Antóníusi og litla hópnum sem Ágústínus segir frá, kom heldur illa við mig að lesa í bók Miltons um hatur hans á kaþólsku og munkareglum: 

„Meinlæta og munkahyskið allt

með sitt fánýtt ruglið, hvort sem er

kuflinn svartur, hvítur eða grár….“

(Paradísarmissir, 3. bók, 584.)

En „Paradise Lost“, er samt stórkostleg bók og þýðing  Jóns Erlendssonar á henni einskonar sigurverk og kallar á sérstaka umfjöllun sem ég er tæpast maður til.

Ég dáist samt að Antóníusi og „Höfðust þar við einhverjir þjónar þínir, fátækir í anda, en slíkra er himnaríki. Þar fundu þeir bók, er ævi Antóníusar er skráð á.“  Þetta segir í Játningum Vlll, 6.

ÉG ER ENGIN, HVER ERT ÞÚ?

ÉG ER ENGIN, HVER ERT ÞÚ?

,,I’m nobody! Who are you?
Are you nobody, to?“

Þannig orti vinkona mín, Emily Dickinson.

Magir koma fram fyrir Jesúm Krist með slíka hugsun:
I’m nobody!

Þá er gott að krjúpa, í einrúmi, hrópa:
Drottinn minn og frelsari.
Miskunna þú.

„Ég beygi holdsins og hjartans kné…“

Og vænti mannelskandi anda hans.

Heilags anda, huggara og hjálpara.

Það er gott að vera einn af smælingjunum.

Gott. Og fáir sem tileinka sér það.

Fáir sem finna veginn þann.

Hann er samt þarna.

Vegurinn.

Nú er aðventa.

Undanfari undursamlegra atburða.

Lokum á fárviðri græðginnar um stund.

Leitum skjóls. Krjúpum.

Beygjum holdsins kné í bæn.

Ávinningurinn kemur á óvart.

FALLHLÍF – FALLHLÍFARSTÖKK

Við vitum ýmislegt um fallhlífar. Víst er svo. Orðið var algengt á yngri árum mínum. Í stríðslvikmyndum og frásögnum styrjöldum tengdum.

Fallhlíf, eins og orðið hljómar forðar falli. Hlífir við hrapi, hindrar að maður hrapi til dauða. Hrapi, missi lífið eða annað verra.

Ég var að grúska í nýrri bók minni. Las þessa setningu og staldraði við. Þar stendur:  „But the Paraclete, the Holy Spirit, whom the Father will send in my name …“

Það var þá sem ég setti orðið Paraclete (παρακλήτι) í þýðingar forritið og þar stendur: Paraclete ,- Fallhlíf.“ Og ég varð kátur í sálinni. Ritningin segir okkur að Faðirinn í himninum vilji forða okkur frá falli, frá hrapi.

Í íslensku Biblíunni segir, Jóh. 14: „En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt…..“

Þetta skrifa ég á aðventunni, til þeirra sem skelfast á bjargbrún. Kvíða og vanmætti. Megi þeir grípa til fallhlífar frelsarans Jesú frá Nasaret.

OFLÆTI VERKAMANNS  lV

Undursamlegt híbýli

Í bók Stefáns Snævars, Á ekrum spekinnar, sem hann af örlæti sínu skenkti mér fyrir skömmu, rak ég augun í tilvísun hans í Halldór Laxness: „Og fegurðin mun ríkja ein.“  Þá upplifði ég margskonar viðbrögð. Neikvæð í fyrstu. Sagði við sjálfan mig, ég er ósammála þessu, þótt alla mína ævi hafi ég dáð Halldór.

Minnugur þess að Plató brenndi bækur sínar, leikrit og ljóð, fagurbókmenntir til að helga hugsun sína fræðum Sókratesar um Góðið. Sem ég hef skilið þannig að í hugsun hans og skilningi sé góðvildin, Góðið sjálft, öllu öðru fremra og efst.

Hvað setningu Halldórs Laxness varðar og nokkurra daga umhugsun þóttist ég greina Nietzsche um dauðan Guð. Þannig að nútíminn hafi hafnað Guði og tekið fegurðina fram yfir Góðið, en á leiðinni villst af vegi og orðið fast í Mammondýrkun og græðgi sem tröllríður veröldinni þessi árin og flokkast hvorki sem góðvild né fegurð. En Guð, minn himneski faðir, er mér afar kær og undursamlegt híbýli.

Nú er það svo að ég dirfist ekki að tjá um bók Stefáns Snævars.

Enda er þar orðfæri, þekking, tilvitnanir og kunnátta alltof mikil fyrir óbreyttan einfaldan verkamann.

En um önnur mið. Virðing mín, sem á undanförnum mánuðum hefur farið vaxandi á fornum manni,  Antoniusi, egypskum einsetumanni, sem sagður er hafa dáið árið 356, 105 ára gamall. Er hann sagður hafa haft mikil áhrif á svokallaðar „heimsflótta- og meinlætahugsjónir“ sem ruddu sér til rúms í kirkjunni á 4. Öld. (Játningar Ágústinusar, Vlll, 6.)

Kem að því síðar.

HUGLEIÐING VERKAMANNS lX

Týndur sonur

Meðfylgjandi mynd er af styttu Jónasar Jakobssonar.

Hún stendur í Vatnaskógi KFUM manna.

Ég gerði mér ferð fyrir allmörgum árum til að taka mynd af henni. Hugleiðing mín er ekki um styttuna. Hún er um höfund hennar, Jónas Jakobsson.

Það var fyrir tæpum sextíu árum sem ég hitti Hvítasunnumennina fyrst eins og ég hef áður skrifað.

Það var austur í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð.

Ýmsir einstaklingar sýndu mér einlæga vináttu í þeim anda sem þeir lifðu lífinu. Frelsaðir fyrir Jesúm Krist og skírðir í heilögum anda. Ég var týndur sonur og fólkið sem ég mætti þar fagnaði yfir mér eins og konan sem fann týndu drökmuna sína. Allt er þetta ljóslifandi í huga mínum þessi árin.

Jónas hafði vinnustofu á Klappastíg, neðan við Hverfisgötu, í Reykjavík. Ég heimsótti hann þangað nokkur skipti. Hann var

Mjög einlægur trúmaður og talaði um Krist eins og einn af vinum sínum. Þannig voru Hvítasunnumenn í þá daga.

Þeir höfðu gert Jesú að einlægum vini sínum og hann þá.

„Þér eruð vinir mínir,…“ segir í guðspjallinu.

Og Jónas sem var allur hvítur af gifsi þar sem hann mótaði manns höfuð tók mér sem einum af sínum bestu vinum. Ég var óvanur slíkum vinahótum. Svo ræddum við málin. Ræddum trúmálin og sérstöðu þeirra manna sem mynduðu söfnuðinn í þá daga. Þau einkenndust af mannelsku. Það var notalegt að upplifa þann anda.

Ég var kominn inn úr kulda. Harðneskjulegu andrúmi. Og hin andlega útgeislun fólksins lék um mig eins og ilmur. Samtal okkar var mjög biblíulegt. Hann talaði um Krist eins og kæran vin og lærði að líta þannig á Jesúm. Tók að nálgast þá hugsun að einnig ég gæti komist í vinahópinn: „Þér eruð vinir mínir…“ stendur í guðspjalllinu og: „ …og þann sem kemur til mín, mun ég allsekki brott reka.“

Þetta ræddum við. Hann sýndi mér þolinmæði þegar ég spurði eins og kálfur og svaraði mér af einlægni. Þetta kemur upp í huga minn núna þegar Kotmót Hvítasunnumanna er nýlokið. Ég var þar í mörg ár og frú Ásta og börnin okkar. Það voru góðir tímar.

Svo tók ný kynslóð við. Henni fylgdi ekki sama tegund af elsku.

Hugleiðingar verkamanns viii

AÐ FINNA VALD SITT AUKAST

Víst geri ég mér grein fyrir því að dirfska mín er óþarflega mikil þegar ég skrifa hugleiðingar mínar hér. Ekki finn ég samt fyrir neinni valdaaukningu í því samhengi. Heldur er hvötin komin til af samúð og samkennd með almúganum sem ég er hluti af.

Spekingurinn Nietzsche, eða Nít-c, spurði: „Hvað er hamingja?“ og svaraði sjálfur:  „Að finna vald sitt aukast.“

Í grúski mínu þessi dægrin minnist ég þess hve lengi ég stansaði við þessa setningu. Síðan eru mörg ár.

Þá lagði frá mér bókina og setti heilavélina í gang. Eða kvörnina, hvað sem þar nú er. Fann út að margar hliðar eru á málinu. Ein er sú að finna getu sína aukast. Önnur er sú að fá vald yfir öðru fólki. Ofurmenni er líka afsprengi hugsunarinnar, hvar einstaklingur verður brjálaður í hugmynd um sjálfan sig. Dæmin eru því miður allmörg gegnum sögu mannkyns en í samtíð okkar er  nærtækt að nefna þær óværur, Adolf Hitler og Pútin.

Í gær endurlas ég bók Victors Frankl: „Leitin að tilgangi lífsins.“ Hvet ég fólk til að lesa hana þó ekki sé nema til að hugleiða brjálsemi Pútíns í Úkraínu. Víst er það ekki eini blóðvöllurinn, og því miður hafa alltof margir þjóðhöfðingjar notað valdeflingu sína til að kremja lífið úr almúgafólki.

Í bók Victors Frankl segir: „Helförin og öll önnur þjóðarmorð, sem framin hafa verið í aldanna rás, sanna að „einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“

Yfirburðir Ktrist, Jesú frá Nasaret felast m.a. í orðum hans:

„Elska skaltu……náungann eins og sjálfan þig.“

Ég lýk þessari hugleiðingu með tilvísun í ritgerð Vilhjálms Árnasonar, heimspekings og siðfræðings. Það er afar góð lesning:

Á launum við að gráta fyrir gullkálfinnÞað er hér um bil sama hvaða fjölmiðil fólk sækir fréttir í.
Allt sem sagt er snýst um gróða, hagnað og svindl.
Gróða og græðgi og græðgi og gróða.

Sagan endurtekur sig.
Sagan um gullkálfinn.
Allir dönsuðu í kringum hann.
Steyptan Gullkálfinn.

Og þeir sögðu:
„Þetta er Guð þinn…“
„Og fólkið var orðið taumlaust…“

Aldraður verkamaður horfir á.
Aldraður verkamaður undrar sig.
Gerir „Faðir vorið“ að besta vini sínum.
Annar aldraður verkamaður gerir
kríur vestur á nesi að vinum sínum.

Þeir hafa ekki skilning á Gullkálfinum.
Öldruðu verkamennirnir.
Hafa ekki skilning á græðgisbakteríunni.
Né fólkinu sem ræktar hana í hjartanu.
Ræktar hana í sálu sinni og hug.
Græðgisbakteríuna.

Né heldur fólkinu sem þiggur hundraðföld
laun aldraðra verkamanna
fyrir að gráta fyrir elskhuga
Gullkálfsins.

Svona er það í dag.
Svona var það í fornöld.
Og verður.
Þar til allt brennur.

HUGLEIÐING VERKAMANNS VII


NIETZSCHE eða NÍTSÉ

Frú Ásta sagði mér þessa ágætu sögu af bróður sínum,
séra Ólafi Oddi (1943- 2005), sem seinna varð prestur í Keflavík við góðan orðstír. Hann var fimm ára þegar hann úti í garði við hús fjölskyldunnar, á Skeggjagötu, gekk um og söng fullum hálsi og af hjartans einlægni, Ástarfaðir himinhæða og Ó, Jesú bróðir besti. Hafði nágrannakona kennt honum sálmana og dregur frú Ásta þá ályktun að þar hafi trúnni verið sáð í huga bróður síns.

Séra Ólafur sagði mér síðar að þegar Nietzsche var kenndur í Guðfræðideild Háskóla Íslands hafi hann upplifað andlegar þrengingar, farið út úr tíma og skokkað þrisvar sinnum kringum skólann og farið með Faðir vorið aftur og aftur.

Þetta kom í huga minn í gærkvöldi þegar ég tók fram bók Nítsés, Handan góðs og ills. Eignaðist hana á útgáfuárinu, 1994, og las. Ákvað nú að endurlesa kaflann Um trúmál, bls. 155. Ýmsar undirstrikanir voru þar frá fyrri lestri. Nú vissi ég ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta. En eftir allnokkra íhugun, reyndar talsverða, fékk ég samúð með höfundinum.

Velti fyrir mér hvort þýðandinn, Arthúr Björgvin Bollason, maður sem sagt er um að tali betri þýsku en Þjóðverjar, væri nógu nákvæmur þegar hann valdi íslensk orð í stað þeirra þýsku. En að lesa þennan kafla Nietzsches er eins og að ganga á glerbrotum, finna þau skerast upp í iljarnar.

Plato komst að þeirri niðurstöðu að elskan, góðið sjálft, væri efst í samlífi manna og brenndi bækur sínar, skáldverk og leikrit, sem þó voru í hávegum höfð. Og Díótóma gaf elskunni hæstu einkunn í samtali við Sókrates. Descartes, þrátt fyrir sínar efasemdir um allt, hugsaði ekki síður svipað og Kierkegaard. Góðir höfundar.

Það er athygli vert að lesa skoðanir Nietzsches á trúmálum. Viðhorf hans eru einhvern veginn mannfjandsamleg og þykir mér ekki hæfa heimspekingi. Heimspekingur, finnst mér, að ætti fyrst og síðast að unna mannkyni. Auðvelda því lífið en ekki að strá glerbrotum undir iljar þess.

Alltaf þykir mér meistari minn frá Nasaret ofar og æðri en margir prinsar heimspekinnar. Á látlausan hátt sagði hann: „Elska skaltu“ og hann gekk um á meðal minnimáttar til að
uppörva þá.

GEF HARMI RÖDD

Við, frú Ásta, lukum jólagjafakortinu nýlega. Fengum þessa stórmerkilegu bók LÍKAMINN GEYMIR ALLT, eftir Besser Van Der Kolk.

Þetta er mikil bók sem ekki verður gleypt á einu kvöldi eins og léttmetið sem flæðir yfir allt.

Að venju hóf ég samlífið við bókina með þukli og strokum. Hún hvorki létt á höndum, liðlega 500 síður, né í huga.  Eins og venjulega byrjaði ég á því að skoða atriðisorðaskrána til að sjá hvort vinir mínir einhverjir væru þar. Þegar ég fann William James á kvað ég að bókin félli mér.

En það sem mig langaði að nefna er sú skemmtilega aðferð höfundar af byrja marga kaflana með tilvitnunum í aðra fræðimenn og skáld. Fyrst greip mig setning Williams Shakespeare, úr Makbeð:

„Gef harmi rödd, sé rómlaus sorgin mesta, neyðir hvísl hennar hjartað til að bresta.“ (Þýð.. Helgi Hálfdanarson)

Þetta bergmálaði strax biblíuorðið: ,,Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég…“

,,Mesta uppgötvun minnar kynslóðar er að manneskjur geta breytt lífi sínu með því að breyta viðhorfum sínum.“ William James og aftur: „Maðurinn hefur jafn mörg félagsleg sjálf og einstaklingarnir sem þekkja hann.“

Það vekur alltaf athygli mína þegar til mín berast fræðirit, að þar er tilnefndur fjöldinn allur af fræðimönnum margra kynslóða. Í þessari bók finn ég ekki nafn Plató né nafn Jesú frá Nasaret. Það gerir bókina verðminni í mínum huga, þó það að sjálfsögðu geri bókinni ekkert mein.

Það var þó Jesús frá Nasaret sem bjargaði lífi mínu með sínum mannelskandi anda og milljónum annarra í gegnum aldirnar og sú reynsla verður aldrei þögguð.

Shakespeare orðar þetta yndislega:  „GEF HARMI RÖDD…“

Og Biblían: „MEÐAN ÉG ÞAGÐI TÆRÐUST BEIN MÍN..“

Þetta segir vikusálin mín í dag.