Verkamaður grefur brunn  III

Orð Krists eru ólík orðum faríseana á hans tíð. Hann sagði við gestgjafa sinn: „Þegar þú gerir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér….“ Lk.14.

Og farísearnir sögðu hneykslaðir: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.“

Drepum svo niður í bók Walt Whitmans, Söngurinn um sjálfan mig. Þar segir í kafla 19, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar:

„Hér stendur borðið dúkað, málsverður handa öllum sem svelta, / Hann er handa ranglátum jafnt og réttlátum, ég á stefnumót við alla, / Ég læt ekki vanvirða neinn eða skilja útundan, / Frillan, afætan, þjófurinn eru hérmeð boðin, / Varaþykkur þrællinn er boðinn, sýfilissjúklingurinn er boðinn; Engan greinarmun skal gera á þeim og öllum hinum.“

Það hefur um langt árabil læðst að mér sú hugsun að Páll postuli hafi ekki skrifað sálminn í 1.kor.13, þar sem segir svo undur fallega um kærleikann;

„Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt, og kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ Svo endar þessi sígildi mannelskunnar sálmur: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“

Það sem truflar mig er að hér eru þessi yndislegu orð um kærleikann, „hann umber allt.“ En Páll postuli umber ekki allt. Hann segir margt grimmt um fólk, hvetur til þess að trúaðir haldi sig frá ýmiskonar syndurum sem séu óværa í mannkyni.

Ég spurði eitt sinn doktor í guðfræði hvort svo gæti verið að Páll hafi ekki skrifað ljóðið. Hann svaraði að bragði: „Ekki hef ég lesið neitt um það.“

En huggun okkar smælingjanna felst í því að kærleikurinn umber allt. Elskan umber allt. Og Jesús Kristur býður öllum til veislunnar.

„Guð er kærleikur. Guð er elska. Guð er andi.“

Er það ekki undursamlegt? Jesús Kristur og hans mannelskandi andi. Góðið sjálft. Það sem spekingar aldanna hafa fundið og margir sett efst í niðurstöðum sínum.

VERKAMAÐUR GREFUR BRUNN II

„Hverfðu inn í sjálfan þig og horfðu.“ Plótínos skrifaði þetta. Gáfaður maður. Mér hefur liðið vel í bókum þessara spöku manna síðustu misseri. Þeir eru ótal margir og einkennast skrif þeirra af mannvináttu. Og leit til að bæta líf manna.

Sér í lagi hafa Játningar Ágústínusar fallið mér í geð. Barátta hans við sjálfan sig og elskan á Guði föður og frelsaranum Jesú Kristi. Kannski eigum við öll, sem glímum við okkar eigin sjálf, ýmislegt sameiginlegt með Ágústínusi.

En þarna eru fleiri. Miklu fleiri, menn sem helguðu sig Drottni. Menn sem krupu í auðmýkt. Krupu. En alltaf kem ég að sömu niðurstöðu. Hæst ber af öllum þessum, Jesús frá Nasaret. Boðskapur hans og mannelska er það stærsta mönnum hefir verið gefið.

Eyjólfur Kjalar Emilsson, heimspekingur, háskólaprófessor og afkastamikill þýðandi bóka grísku spekinganna, hefur gert okkur einföldum verkamönnum hér á klakanum kleift að litast um  íþessum mikilvægu bókmenntum. Spekiritum. Ekki veit ég hvort honum hefir verið þakkað það eins og ber.

Spekiritum segi ég. Ástarspeki ritum. Stefán Snævarr heimspekingur nefndi einmitt eina bóka sinna Ástarspeki. Það var samt Walt Whitman sem ég ætlaði að vitna í, bandarískt ljóðskáld. (1819 – 1892 ).

En þetta nægir í dag.

VERKAMAÐUR GREFUR BRUNN

Á  dögum Abrahams grófu menn brunna. Vatnsbrunna og viskubrunna. Svo liðu aldir. Þales,  Sókrates, Plato og Aristoteles og fleiri. Í röðum, löngu fyrir okkar tímatal og áfram eftir það.

Hver með sína speki, hver með sína brunna. Því að fyrst er spýta og svo er spýta og svo er spýta í kross. Og þá fer allt að snúast.

Plotinus, 2oo árum eftir Krist,  sýnist vilja gera að jöfnu fegurðina og Góðið sjálft. Ekki er auðvelt að vera honum sammála um það. Plato, 600 árum áður, hafnaði fegurðunni fyrir Góðið.

Hann hélt kveðjuhóf og brenndi bækur sínar, leikrit og ljóð og kvaddi vini sína og fyrra líf. Hann hafði hitt Sókrates og heyrt á tal hans um viskuna og elskuna og ákvað að helga sig þeirri speki og lífsformi hennar.

Mannelskandi andi er eitt af dýrmætustu hugtökum mannamáls. Mannelskandi andi. „Guð er andi…“ Þetta orðalag, mannelskandi andi, er miklu stærra og víðfeðmara en virðist við fyrstu sýn. Í nútímanum er ekki mikið rými fyrir það.

Mynd eftir Gustave Doré í Gleðileik Dantes, kemur í hugann, þar sem skipsmenn stjaka fjölda fólks sem svamlar í hafinu kringum bátinn og reynir að komast um borð, er ýtt á kaf og drekkt.

Góðið sjálft. Aldrei hefur mér þótt orðið kærleikur lýsa elskunni sem í þeirri hugsun býr. Ástríðufull elska, „hörð eins og hel,“ hefur ekki orð á íslensku yfir þá tegund elsku sem þessir stórkostlegu hugsuðir komust að niðurstöðu um og seinna Jesús Kristur sem lifði og boðaði og gaf líf sitt fyrir til að birta mannkyni og opna því leið, opna því veg.

Hvernig svo sem litið er á söguna, þá jafnast ekkert á við komu Krists og erindis hans til mannkyns. Ekkert. Samt á kristni ekki upp á pallborðið hjá nútímanum. Í nafni nútímaþekkingar æsa allskyns trúðar sig upp og krefjast þess að kristni sé jaðarsett.

Að Góðinu sjálfu, mannelskandi andanum, sé úthýst svo að kaldlyndu öflin, völd og græðgi, nái tökum um víða veröld.  Sjálfi, egói og yfirsjálfi til fullnægingar. Á kostnað annarra. Að sjálfsögðu. Á kostnað annarra.