Og enn af Pound. Fjöldinn allur af heimsfrægum rithöfundum, skáldum og listmálurum, söfnuðust saman í vinnustofunni hjá Gertrude Stein í rue de Fleurus 27 í París. Gertrude Stein var einstök manneskja, rithöfundur og málverkasafnari. Hún var fædd í Pennsilvaníu í Bandaríkjunum. Bækur segja að blómi listamanna á heimsvísu, á fyrri hluta síðustu aldar, hafi verið fastagestir hjá henni og tekið þátt í veislum og samræðum um listir.
Lítum í bókina, The Autobiograohy of Alice B. Toklas, sem Gertrude skrifaði um sjálfa sig í nafni ástkonu sinnar og félaga um áraraðir:
„Við hittum Ezra Pound í Grace Lounsbury, hann kom með okkur heim í mat og stansaði og talaði um japanska myndlist meðal annars. Gertrude Stein líkaði við hann en fannst hann ekki skemmtilegur. […] Ezra talaði einnig um T.S. Eliot. Það var í fyrsta skipti sem einver hafði talað um T.S.Eliot í húsinu. Fljótlega fóru allir að tala um T.S.Eliot.
Ezra kom aftur seinna með ritstjóra The Dial. Þá var umræðuefnið ofsafengnara en um japanska list. Undrandi á ofsanum datt Ezra úr litlum uppáhalds hægindastól sem Gertrude Stein átti, stól sem ég hef síðan saumað út í eftir hönnun Picassos. Gertrude varð ofsareið. Ezra og ritstjóri The Dial yfirgáfu staðinn í skyndi, sem flestum líkaði illa. Gertrude vildi ekki sjá Ezra aftur. Hann gat eiginlega aldrei skilið hvers vegna.
Einn daginn mætti Ezra Gertrude í grennd við Luxemborgargarðinn og sagði, en mig langar að koma og hitta þig. Því miður, svaraði Gertrude, en ungfrú Toklas er með tannpínu og þar fyrir utan erum við uppteknar við að tína villt blóm. Þetta var alltsaman satt, eins og allt sem Gertrude sagði, en það særði Ezra og við sáum hann aldrei aftur.“
—–
Söngvarnir frá Písa, eftir Ezra Pound, sem kom út á síðasta ári, kölluðu fram í minninu það sem ég hafði áður lesið um hann í bókum eftir gamla uppáhaldshöfunda mína. Það má því segja að nostalgíu ástríða hafi tekið mig tökum. Mér hefur fundist klíkan, það er þessi stóri hópur listamanna sem hittist hjá Gertrude Stein í rue de Fleurus 27, í París, vera hérna hjá mér á sjöundu hæðinni og ég staðið mig að því að spjalla við þá hálfhátt.
Þá spurði Ásta stundum: „Varstu að segja eitthvað, Óli minn?“
„Nei, nei,“ svaraði ég, „Toklas er að væflast með hvað hún eigi að elda í kvöld, Picasso er í megrun.“