Gullmolinn

Þær sátu við næsta borð og ræddu af ákafa um líf sitt og töluðu fullum hálsi. Djarfar eins og þær væru einar heima í eldhúskróki og hægt að láta allt flakka. Þannig töluðu þær um maka sína og afkvæmi og hús og bíla og ferðalög og allt hvað eina og Siggu Bjarna, greyið, sem lenti í skilnaði og missti allt.

Þetta voru myndarlegar konur á aldri áleiðis í fertugt. Þrjár saman. Sjálfsánægjan ljómaði af þeim. Eða á ég að segja hamingjan. Ég átta mig ekki alveg á muninum. Þegar sú með mikla hárið tók til máls horfðu hinar á hana með spurningu í svipnum eða undrun eða tortryggni. Hún sagði:

„Hann er alger gullmoli. Ég var í sárum um þetta leyti og sat á skemmtistað ein við borð þegar hann kom og spurði hvort hann mætti setjast. Svo leiddi hvað af öðru. Hann er alger gullmoli. Ég bókstaflega tilbið hann. Ég er svo sæl. Að hann, þessi gullmoli, skyldi taka eftir mér og velja mig. Hann kemur að sækja mig á eftir.“

Gullmoli? Ég var nú heldur betur orðinn forvitinn. Gullmoli? Hverskonar manngerð ætli það sé? Gullmoli? Hvernig er hægt að lýsa manni á þann veg? Og hvað ætli felist í lýsingunni? Gullmoli? Skyldi það vera mælt í karötum? Það er ekki sama gull og gull.

Hvað um það. Við vinnufélagarnir höfðum staðið upp og bjuggumst til að fara. Maður kom í salinn og skimaði um. Hann var óþarflega beinn í baki. Hnakkakerrtur. Þóttafullur á svipinn. Alvörugefinn. Líkur manni sem hefur alltaf rétt fyrir sér. Hann gekk áleiðis að borði kvennanna þriggja.

Konan með mikla hárið stóð snögglega á fætur. Hún greip töskuna sína og yfirhöfn af næsta stól, og sagði flaumósa: „Stelpur, ég verð að fara.“ Svo snéri hún sér við og kallaði: „Ég er alveg að koma.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.