Það er sunnudagsmorgun og það rignir. Rigningin er langþráð og maður reynir að hugsa eins og jarðvegur. Það blasir samt við að jarðvegur hugsar ekki. En hann lifir og er þótt hann hugsi ekki. Því getur verið eins farið með mig, ég er þótt ég hugsi ekki, þrátt fyrir cogito ergo sum. Og það er sunnudagsmorgun og það rignir og ég fagna með jörðinni.
Ýmsir segja að með hækkuðum aldri hneigist fólk til moldarinnar þaðan sem það kom og þangað sem það fer. En til er fólk sem lærði einfaldlega að unna moldinni í bernsku og unni henni allt sitt líf og lifir frjálst með þeirri elsku og virðingu án þess að láta kjaftaska hafa áhrif þar á. Þetta er án efa svipað með það sem fólk uppgötvar á yngri árum og meðtekur blessun af. Blessun.
En það kostar verulega þjálfun að sniðganga allt þetta yfirgengilega áreiti sem stundað er af öllum mögulegum manngerðum og hagsmunahópum og markaðsfræðum og menningarvitum og stjórnmálamönnum og óheiðarlegum fjölmiðlamönnum, sem krefjast þess í síbylju að fólk úti í bæ taki afstöðu með því og raði sér í halarófu og elti það. Það kostar verulega þjálfun. Þjálfun.
Sá kostur sem fólk á með hækkuðum aldri er að þjálfa sig í varnarleik við öllum þeim andskotum sem á það herja. Eitt af þeim skjólum sem hægt er að halla sér í er minningin frá fyrri árum. Margir tala um ástríðufulla nostalgíu á neikvæðan hátt, gera lítið úr henni, rétt eins og það ætli sjálft aldrei að ná hækkuðum aldri og upplifa það sama. Nostalgía.
Á sunnudagsmorgni eins og þessum þegar rignir loksins eftir langa þurrka og frostnætur, og tilveran er mött og þægileg þá ákveð ég að rifja upp hvað mér þótti afskaplega gaman að lesa, ellefu, tólf og þrettán ára gömlum, A.J. Cronin, Slaughter, Kipling og Bromfield. Man þessi nöfn. Eflaust eru þau miklu fleiri. Svo bættust margir við næstu árin og áratugina, frægir og frægðarlausir, sem héldu mér veislur. Það voru glimrandi veislur. Veislur.
Þegar Davíð Stefánsson og Stefán frá Hvítadal og Káin og Páll Ólafsson náðu til mín,- það er þannig með ljóðin að allt í einu opnast hugurinn fyrir þeim – þá nýtur maður veislunnar í enn ríkari mæli. Ég er að velta mér upp úr þessum minningum um þessar mundir. Vek þær upp með vorregninu sem kveikir lífið í moldinni, rótum gróðursins. Og horfi til grassins sem verður svo „grænt að það sýnist vera blátt.“ Blátt gras.
Um nostalgíu segir Webster´s New International Dictionary, 3d edition:
Nostalgia . . . from Greek nostos return home . . . ;akin to Old High German ginesan to survive, Goth ganisian to get well, be saved. = Hólpinn, eða hvað?