Verbum perfectum: sinceritas II

„Ezra Pound var vinur vina sinna og reiðubúinn að brjóta sig í mola fyrir fólk. Vinnustofan þar sem hann hafðist við ásamt Dorothy konu sinni á rue Notre-Dames-des-Champs var að sínu leyti eins aum og ríkmannlegt var hjá Gertrude Stein. […] Mér geðjaðist ágætlega að málverkunum eftir Dorothy og mér fannst Dorothy stórfríð og undursamlega á sig komin.“

Þannig kemst Hemingway að orði í sinni yndislegu bók, Veisla í farangrinum, sem annar textasnillingur, Halldór Kiljan Laxness, þýddi. Halldór Kiljan er einn af þessum afburðaþýðendum sem fáir standa á sporði. Kemur það vel í ljós í Veislu í farangrinum og Vopnin kvödd og sætir furðu hvað Halldór þýðir Hemingway vel eins og málfar þeirra á eigin skáldverkum er ólíkt.

Og Hemingway heldur áfram: „Ezra var vænn í sér og kristilegri við fólk en ég. Það sem hann skrifaði, ef góði gállinn var á honum, var svo alskapað, og hann að sama skapi einlægur í mistökum sínum og ástfanginn af villum sínum, og svo vænn við fólk, að mér var tamast að líta á hann sem nokkurskonar helgan mann. Hann gat líka verið fauti og það hafa eflaust margir helgir menn verið.“

Sumir vinanna í hillunum mínum fjalla um Ezra. Einn þeirra er Helgi Hálfdanarson. Hann hefur þýtt nokkur ljóð eftir Ezra Pound. Fáir fara í föt Helga við ljóðaþýðingar eins og öllum ber saman um. Hægþroska eins tungumáls klaufar eins og ég eru afar þakklátir fyrir þýðingarnar. Þær veita okkur aðgang að miklum höfundum sem við njótum af einlægni að láta anda inn í brjóst okkar list sinni og orðagöldrum.

Í þeirri von að ég hafi stjórn á nauðsynlegum gæsalöppum og sleppi ókærður leyfi ég mér að birta hér eitt lítið ljóð í þýðingu Helga Hálfdanarsonar:

SOIRÉE
eftir Ezra Pound

„Þegar hann varð þess vís að móðirin orti,
og að faðirinn orti,
og að yngsti sonurinn vann hjá útgefanda,
og að vinur mið-dótturinnar hafði orðið fyrir skáldsögu,
þá varð hinum unga Amiríku-pílagrími
að orði:
„Þetta er þræl-slunginn klíka.““

Meira fljótlega.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.