Vald konunnar

Ekki á fótum fyrr en undir átta. Þá var bjartara úti en marga undanfarna morgna. Verkaði vel á sálina. Og kaffið rann niður og þaut út í æðarnar. Eftir seinni bollann byrjaði Ásta að tala. „Það væri gott að ganga svolítið núna.” „Já, elskan mín, fyrir alla muni gakktu.” „Mundir þú koma með” „Viltu nokkuð vera að draga mig inn í þetta?” Þögn.

„Þér veitti nú ekkert af að ganga svolítið. Hefur ekki hreyft þig síðan í fyrra.” „Fyrra. Ég gekk stigann í gær.” „Það er nú engin ganga til að tala um.” „Sjö hæðir þó.” „Jæja góði, ég geng þá ekkert heldur.” „Á ég nú að fá samviskubit?” „Þú ræður því.” „Ofbeldi.” Þögn.

„Mannstu þegar við gengum upp við Esju með Týra?” „Víst geri ég það.” „Manstu eftir ilminum úr jörðinni?” „Já.” „Og hvað Týrus naut þess að hlaupa um með nefið niður í hverri holu?” „Já.” „Þá var gott að vera til.” „Já.” „Nú er enginn Týrus.” „Nei.” „Mundir þú fara og ganga ef Týrus væri lifandi?” „Ha.” „Var félagsskapurinn við hann miklu betri en minn?” Þögn. Þögn.

„Ætlarðu ekki að fara að koma þér af stað kona?” „Ætlarðu þá að koma með mér?” „Á ég nokkra kosti?” „Guð, hvað þú ert sætur í þér.” „Það er ekki lítið.” „Ertu viss um að þú nennir?” „Get ekki haft á samviskunni að þú gangir ekki.” Þögn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.