Við horngluggann, í morgun, yfir kaffibollunum litum við í ljóðabækur tvær, litlar en snotrar, eftir Björn Sigurbjörnsson. Þessi við erum við Ásta. Hún hafði látið áhuga sinn fyrir einu ljóðanna í ljós fyrir tveim vikum, þegar hún heyrði á Rás eitt lesið ljóðið 11. september, eftir Björn. Það varð til þess að ég gerði mér erindi niður í Mál og menningu einn daginn til að skoða bókina, sem reyndust vera tvær, og keypti þær og gaf Ástu í afmælisgjöf. Önnur heitir Orð og mál, hin Út og heim.
Vinátta á mynd
Við fórum í gær, við Ásta, á sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands eins og við höfum gert mörg undanfarin ár. Þetta er mikil sýning. Ótal myndir af miklum atburðum, flestar stórar og margar í sterkum og hörðum litum. Þarna eru grátlegar myndir, svolítið fyndnar myndir, myndir af íþróttum og flest öllu þar á milli.