Vinátta á mynd

Við fórum í gær, við Ásta, á sýningu Blaðaljósmyndarafélags Íslands eins og við höfum gert mörg undanfarin ár. Þetta er mikil sýning. Ótal myndir af miklum atburðum, flestar stórar og margar í sterkum og hörðum litum. Þarna eru grátlegar myndir, svolítið fyndnar myndir, myndir af íþróttum og flest öllu þar á milli.

Brimið í Grímsey og Fámennið, eftir Rax, segir sögu um hrikalega náttúru sem ógnar örsmáu fólki í örsmáu samfélagi og sýnir um leið hvað maðurinn, sandkornin á sjávarströnd, er duglegur að halda út og tekur ógnunum eins og örvandi undirspili við daglegt líf. Lætur hramma hafsins hvetja sig og uppörva í amstri dægranna og nýtur lífsins á allt annan hátt en elítur borganna sem smíða sér vindmyllur til að takast á við.

Það er nokkur vandi að ganga um sýningu sem þessa. Manni virðist að metnaður ungra ljósmyndara stefni meira til tækni og tölvuvinnslu, ytri áhrifa, heldur en snertingu þeirra hrifningarsvæða sem er svo erfitt að lýsa með orðum. En vissulega eru þarna blaðaljósmyndarar á ferð sem búa til myndir til að birta með og undirstrika fréttir. Og glamor. Og gera það vel.

Eftir tiltölulega fljótfarna yfirferð um efri salina tvo héldum við niður á jarðhæðina. Hófum ferðina við myndir Ólafs K. Magnússonar. Allar svart hvítar. Og nú breyttist lífið gjörsamlega. Þarna var allt annar hugblær. Sumar myndir svo hrífandi að innri maðurinn hló við. Strákar í stangastökki. Hópur stráka starir með opinn munninn á einn félaga sinna svífa yfir rána. Og halda niðri í sér andanum.

Allur grátónaskalinn birtist í mynd frá höfninni í Reykjavík. Fiskkös á bryggju í forgrunni. Niðursokknir verkamenn vinna við fiskinn og strákapollar fylgjast með, í miðmynd. Bryggjan endar ofan í sjónum. Í bakgrunni, í þoku, er Hæringur. Síldarverksmiðja sem aldrei var. Á einhvern ísmeygilegan hátt finnst mér Ólafur segja, „þetta eru góðir verkamenn. Mér er hlýtt til þeirra og pollana. Myndin þarf að lýsa vináttu.”

Aðrar góðar eru Gönguför í þokunni. Prúðbúnir reykvíkingar á göngu í Bankastræti. Væntanlega á sunnudegi. Og að síðustu, Kaffihlé á Siglufirði. Tvær konur standa uppi við síldartunnur, í stórum hvítum svuntum og stígvélum með skýlur bundnar yfir hárið. Þær súpa á kaffibollum. Og hugur manns grípur tilfinninguna: Ósköp er gott að rétta aðeins úr bakinu, halla sér í hvíldarstellingu upp að tunnunum og sötra heitt kaffi.

Við Ásta fengum okkur kaffibolla í teríu safnsins. Sjóðheitt svart kaffi. Og ögn af kolvetnum með.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.