Prestlegur tölvupóstur

Um síðustu helgi varð nokkurt uppnám vegna útvarpsræðu prests Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík. Kom þar fram að formaður prestafélags þjóðkirkjunnar hafði hvatt kollega sína í stéttinni, með tölvupósti, til að hvetja fermingarbörn og aðstandendur þeirra sem ekki væru þegar skráð í þjóðkirkjuna, til að skrá sig þar og yfirgefa þar með það samfélag sem þau tilheyrðu.

Ekki var mikil reisn yfir erindi tölvubréfsins. Og ekki voru varnarorð sendanda þess háleit. Sagðist hann ætlast til að tölvubréf sín til kollega væru trúnaðarmál og erindi þeirra ekki ætlað að birtast opinberlega. Má af því draga þá ályktun að vegna efnisins þoli þau illa dagsbirtu. En efni sem ekki þolir dagsbirtu er væntanlega hæpið efni.

Hvað um það. Í gegnum alla sögu kristninnar les maður um flokkadrætti og samkeppni af allskyns toga. Barátta meistarans sjálfs, Jesú Krists, var við ráðrík og eigingjörn öfl sem að lokum lugu hann til lífláts. Allt í nafni Guðs þeirra. En Jesús lifir og er það ein af dásemdum lífisins. Kannski ætti allur prestlegur tölvupóstur að fjalla um það. Ekki síst á lönguföstu. En „af gnægð hjartans mælir munnurinn.”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.