Til eru orð sem lífga og til eru orð sem deyða.
Lífið er þakið orðum.
Orð flæða og flæða.
Mörg orð ryðja sér veg, önnur laða sér leið.
Öll orð hafa áhrif.
Þau vinna og starfa.
Orð setjast í opinn huga og festast í þráðum hans.
Vinna og starfa.
Móta og skapa.
Eftir eðli sínu og rót.
Orð sem lífga og orð sem deyða.
Hver hlýtur góðu orðin?
Hver hlýtur vondu orðin?
Menn heyja glímur í huga,
glíma með orðum.
Orð þeirra verða að vopnum,
orð með og orð á móti.
Rót þeirra ræður yfir glímunni.
Af hvaða rót er þitt orðabúr?
Mikilvægt er að koma sér upp jákvæðum orðum,
orðum sem vinna með lífinu,
flæða um merg og bein
og endurnýja vefi og vökva,
orðum sem eru alltaf ný
og starfsöm.
Orðum sem hafa góðan anda.
Sum orð hafa jákvæðan anda,
Anda sem elskar.
Jesús Kristur er þannig Orð.
Blessaður maðurinn, á krossinum.
Hann unni öðrum heitt.
„Hver mun annars taka í hönd mína?”
andvarpaði Job til Guðs.
Þjáður, sjúkur, sár, vinafár
háði hann glímu. Einkaglímu.
Orð á móti orði. Hugsun á móti hugsun.
Glímuna unnu Guðsorðin..
Með Guði reis Job aftur upp til lífsins.
Og ég.
Lofum Guð.