Vesalingar

Kvikmyndin Vesalingarnir sem sýnd var á Dk 1, síðastliðinn miðvikudag, varð til þess að ég endurlas bókina. Lítilsháttar vonbrigði voru með málfarið á henni eftir öll þessi ár, en efnið stóð vel fyrir sínu. Sígild skáldsaga.

Eins og ég gat um hér þá hefur sagan og tilfinningin fyrir henni setið í mér í meira en hálfa öld. Vafalaust gerir hún það hjá öllum sem lesa hana. Sú spurning sækir á alla leið út í gegnum bókina hver af persónum hennar sé í rauninni mesti vesalingurinn. Greinilega eru þeir margir og fjölskrúðugir.

Sagan gerist að mestu leyti í París. Aðalsögupersónan, Jean Valjean, er í forgrunni megnið af bókinni. Hann er dæmdur í fimm ára þrælkun fyrir að brjóta rúðu og stela brauði. Það gerði hann til að seðja fjölskyldu sína, systur sína og börn hennar. Eymdin vofði yfir þeim. Síðar var hann dæmdur fjórum sinnum fyrir tilraunir til að strjúka úr fangelsi. Samtals nítján ár.

Önnur aðalpersónan er Javert lögregluforingi. Um hann segir: „Javert var fæddur i fangelsi. Móðir hans var spákona, en maðurinn hennar var á galeiðunum. Á uppvaxtarárunum fannst honum samfélagið loka sig úti. […] Þessi maður var samansettur úr tveim kenndum, báðum harla einföldum og harla góðum í sjálfu sér, en við lá að hann geri þær illar með öfgum sínum.“

Mestu vesalingarnir í sögunni eru hjónin, herra og frú Thénardier. Herra Thénardier er lágkúrulegasta persónan í bókinni. Hann nýtir sér bágborna stöðu fólks, stelur og svíkur það á alla mögulega vegu. Hann er undirförull og notar gjarnan annað nafn en sitt eigið við undirferlið. Það er mikið myrkur í kringum hann.

Margt fleira fólk kemur við sögu. Ótal persónur. Ein þeirra er Fantína. Hún er ólánssöm og þarf að koma dóttur sinni, Kósínu, þriggja ára, í fóstur. Semur hún við Thénardier- hjónin, en hún vissi engin deili á þeim. Þau kúguðu hana fjárhagslega og fóru illa dóttur hennar.

Bókin fjallar um vesalinga. Margar gerðir vesalinga. Suma þeirra kannast maður við í samtímanum.

2 svör við “Vesalingar”

  1. Gaman að fá svona orðsendingu, Þráinn. Ég held að ég viti um að minnsta kosti þrjár kvikmyndir eftir Vesalingunum.
    En það er þess virði að lesa Hugo og vonandi finnur þú bækur hans á safni. Þær eru áreiðanlega ekki til í verslunum.

    Takk fyrir jákvæð orð. Þau gleðja hérna niðri á láglendinu.

  2. Takk fyrir þessa skemmtilegu færslu. Mig dauðlangar að feta í fótspor þín og lesa Vesalingana á íslensku og sjá kvikmyndina. Var einmitt að hugsa um hvað ég er ókunnugur ritverkum Hugos, en ég var að ljúka við að lesa frábæra ævisögu um hann eftir magnaðan breskan höfund sem heitir Graham Robb. Bestu þakkir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.