Bergmál hugsunar

„Mér fellur ekki fólk sem hvorki hefur fallið né hrasað.
Dyggð þess er lífvana og ekki mikils virði.
Lífið hefur ekki sýnt þeim fegurð sína.“

Hugsun þessi og orð eru eftir Boris Pasternak. Hann var rússneskt skáld (1880 – 1960). Þekktasta verk hans var Doktor Zhivago. Fyrir það fékk hann nóbelsverðlaunin 1958. Hann varð að afþakka heiðurinn vegna mótmæla í heimalandi sínu. Bókin var bönnuð í Sovétríkjunum og var Pasternak rekin úr Sovéska rithöfundasambandinu. Þegar Doktor Zhivago hafði komið út á vesturlöndum var bókin fljótlega þýdd á 18 tungumál. Pasternak fékk uppreisn æru árið 1987, 27 árum eftir andlát sitt. Þá fyrst voru heildarverk hans gefin út.

Faðir Borisar var prófessor við Moscow School of Painting. Móðir hans var eftirsóttur konsert píanóleikari. Fjölskylduvinir þeirra voru menn eins og Rachmaninoff, Scriabin, Rilke og Tolstoy. Pasternak hóf tónlistarnám við Moscow Conservatory en hætti þar og tók til við heimspeki undir leiðsögn prófessors Herman Cohen í Marburgháskólanum í Þýskalandi.
Þar sem bannfærður Pasternak fékk eigin verk ekki útgefin snéri hann sér að þýðingum mikilla meistara. Má þar nefna Shakespeare, Goethe, Heinrich Kleist, Paul Verlaine og Rainer Maria Rilke. Þetta eru aðeins örfá atriði úr lífi rithöfundarins.

Setningin efst í pistlinum fékk mig til að staldra við og lesa hana aftur. Og aftur. Hún minnti mig á orð eins verðandi leiðtoga í hvítasunnuhreyfingunni á svokölluðu fræðslumóti úti á landi. Það var fyrir allmörgum árum síðan. Á meðal þátttakenda vorum við nokkrir samhjálparvinir og skjólstæðingar. Leiðtoginn var að útskýra mál sitt og mismuninn á stöðu manna frammi fyrir almættinu. Hann komst fremur lipurlega að orði í máli sínu og sagði meðal annars: „Við þessi sem ekki höfum syndgað erum öðru vísi…..“

Og það má auðvitað til sannsvegar færa!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.