Einu sinni var krati

Auður og völd. Fjölmiðlafólk sér til þess að umræða um þessa tvo þætti tilverunnar hljóma í tíma og ótíma. Fjármál og stjórnmál. Velti því stundum fyrir mér hvað valdi. Finnst líklegt að aðstandendur þessara þátta séu duglegri en aðrir við að koma sér á framfæri við fjölmiðlana. Eiga væntanlega mikið undir því komið að ráða litnum á umræðunni. Þegar hæst lætur er því líkast að allir Íslendingar séu annað af tvennu, milljarðamæringar eða stjórnmálahetjur.

Umræðan á alþingi kemur alltaf jafnmikið á óvart. Aðferðafræði stjórnarandstöðunnar er á þann veg að maður fær á tilfinninguna að þeir álíti okkur almúgafólkið upp til hópa fífl og hálfvita. Með miklum tilþrifum hamast þeir á meirihlutanum og eru á móti öllu sem hann hefur fram að færa. Virðist það vera það eina sem þeir hafa til mála að leggja.

Fróðlegt væri að sjá hvernig stjórnarandstaðan stæði að þeim sömu málum fengi hún tækifæri til að láta til sín taka. En til þess að eiga möguleika á því verður hún að láta af þeim ótrúverðuga málflutningi sem hún ástundar. Það hvarflar stundum að manni að henni líði betur án valda og ábyrgðar og kjósi að vera stikkfrí.

Prófkjör stjórnmálaflokka fyrir kosningar til sveitarstjórna eru nú afstaðnar. Fróðlegt var í síðustu viku að fylgjast með hvernig frambjóðendur Samfylkingarinnar í Reykjavík þyrluðu upp lofsorði um sjálfa sig og hrópuðu að framundan, í höndum þeirra, biði mikill framfaratími í lífi borgaranna. Loksins. Rétt eins og þeir hefðu hvergi komið að stjórn borgarmála fram til þessa. Undrun vekur að núverandi borgarstjóri skyldi ekki hljóta efsta sætið.

Mikið hefur verið rætt um tröllvaxna afkomu banka og risafyrirtækja, (tröllvaxna á íslenskan mælikvarða, vel að merkja) og útrás þeirra. Mörg sterk lýsingarorð verið höfð um það hversu mikill ávinningur það sé fyrir þjóðarbúið og alla afkomu þjóðarinnar. Svo og svo miklar upphæðir, í þúsundum milljóna talið, hafi komið í ríkissjóð af starfsemi þeirra í formi skatta, og engin dæmi séu um annað eins.

Það sem kemur á óvart í því samgengi er, af hverju þessi mikli gróði fyrirtækja og hundraðfaldar skatttekjur ríkisins, ná ekki að lagfæra hag lakast settu þegnanna. Sú spurning brennur á hvort ráðamenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafi ekki næga stærð til að tryggja þeim verst settu mannsæmandi afkomu. Það er umhugsunarefni á þessum tímum hinna risavöxnu fjármagnselfa.

Þegar Aleida Guevera var spurð út í ástæður fyrir því að fylgi vinstri sinnaðra leiðtoga hafi aukist til muna í suður Ameríku, svaraði hún: „Í mörg ár hafa hægri stjórnvöld ekki komið vel fram við fólkið sitt. Þá finnst fólki kominn tími til að reyna eitthvað annað.“ Í framhaldi af þeim orðum mætti spyrja sig hvað annað væri hægt að reyna hér uppi á Íslandi, þar sem vinstri flokkar standa ekki undir nafni.

Þetta kom í hugann þegar ég skimaði eftir verkafólki á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Á þeim bæ hefur fólk misst áttina. Ruglast í ríminu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.