Í grein í síðustu Lesbók vitnar höfundur hennar í orð félaga síns sem sagði: „það er ekki hægt að segja þetta „eðlilega“ á íslensku, það virkar „asnalegt“, mikið betra að segja það á ensku.“ Vangaveltur eins og þessi fá mann til að hugsa hversu asnalegur maður hefur þá verið síðustu fimmtíu ár, að hafa ekki sagt: „I love you, Ásta.“
Tungutal í BYKO
Kom við í BYKO. Á oft erindi þangað. Þó ekki sé nema til þess að skoða nýjungar í verkfærum. Kaupi gjarnan skrúfjárn eða þjöl. Eins og börnin í gamla daga keyptu sér Matchbox bíla ef þeim áskotnuðust fáeinir aurar. Það er afar ánægjulegt. Framleiðendur eru svo elskulegir að hafa tólin í fallegum litum, djúpgrænum, bláum og rauðum. Þau dýrari tekur maður upp og vegur í hendi og mundar, leggur síðan frá sér aftur. Og kinkar kolli.
Þrír vinir í tónum og textum
Þrjú atriði á tónlistarhátíð í gær glöddu öðrum fremur. Þannig gerist gjarnan þegar vinir fá viðurkenningu. Í gær fengu þrír af vinum mínum viðurkenningu. Þegar ég segi vini þá er ég að tala um lög, tóna, texta og flutning sem áður höfðu hrifið mig og sest að í hugarfylgsninu. Þessum stað sem svo flókið er að staðsetja.
Einföld strik og fáir litir
Stundum raða góðir dagar sér upp og umlykja fólk. Þá er góður tími. Það er samt misjafnt hvað gerir daga góða. Hjá flóknum og margbrotnum sálum þarf vafalaust margháttuð atriði til að gera daga góða. Okkur hinum nægja einföld strik og fáir litir. Síðustu dagar hafa einmitt verið slíkir í mínu umhverfi og innri maðurinn brosir drjúgur með sig þegar orð Prédikarans um vondu dagana missa gildi sitt um hríð, þótt sígild séu.
Hugleiðing við sviplegt fráfall vinar
Það er vandi að fjalla um mannelsku og mannelskandi anda. Orðræða nútímans flokkar slíka umfjöllun undir viðkvæmni og eða væmni. En Guði sé lof fyrir að stöku sinnum verða á vegi manns einstaklingar sem slíkur andi býr í. Helgi Jósefsson var einn sárafárra. Maður elskunnar. Mildi og meðlíðan voru persónueinkenni hans. Nærvera hans hlý, kyrr og sefandi. Ólík anda og andþrengslum nútímans.
Fannfergi – snjóföl
Það tók mig nokkurn tíma að grípa lýsingu fréttamannsins, í vikunni sem leið, þegar hann talaði um fannfergið í borginni. Ha, hvað er maðurinn að segja? Hverju er hann að lýsa? Hann kallar snjófölina, sem liggur yfir þessa daga í borginni, fannfergi. Hvaða orð skyldi hann nota um það magn af snjó sem árvisst féll á landinu okkar góða á miðri síðustu öld. Það væri fróðlegt að heyra það.
Áskorun
Smelltu á myndina hér fyrir neðan.
Tvö stórmál vikunnar
Tvö mál hafa vakið athygli framar öðrum þessa vikuna. Í fyrsta lagi er um að ræða blaðamennsku DV. Ekki er nema eðlilegt að þjóðin kveini yfir aðferðum blaðsins. Aðferðum sem eiga rót sína í fégræðgi. Og ekki hvað síst þegar hún er ættuð frá mönnum sem eiga fúlgur af peningum. Rökfærslur ritstjóranna til að réttlæta aðferðir sínar eru bull. Áhugi þeirra á því sem þeir kalla sannleika er ósannur. Þeir eyðileggja meira en þeir þykjast lagfæra. Og vita það. En dagblöð þurfa að seljast.
Tveir íslenskir nóbelshöfundar
Það eru auðvitað heilmikil tíðindi að íslenska þjóðin skuli í reynd hafa átt tvo nóbelshöfunda. Það er að segja tvo rithöfunda sem báðir voru verðugir nóbels-verðlauna. Því svo er að heyra að það hafi verið stjórnmálaskoðanir þeirra sem skildu á milli. Annar hafi verið kommúnisti en hinn nasisti. Og af tvennu illu hafi kommúnistinn verið skárri kostur. Raunar voru Svíar alltaf talsvert til vinstri.
Nýjar sólir og gamlar
Nú tekur þjóðin að afjóla sig. Svo er og í okkar hýbýlum. Ásta líður um húsið og safnar skrautinu saman og flokkar það. Hver flokkur á sinn kassa og hver kassi sinn geymslustað. Hún vandar starfið. Ég get vitnað um það. Hún hefir annast um að skreyta húsið okkar yfir fjörutíu og sjö fæðingarhátíðir frelsarans. Og með því glatt okkur börnin sín. Það brást aldrei. Þetta er samt dálítið öðruvísi þessi árin. Það hefur fækkað í húsinu.