Ólafur Oddur Jónsson, minning

Það verður fátt um orð þegar reynt er að setja saman litla grein til að minnast séra Ólafs Odds. Svo skyndilegt og óvænt var fráfall hans að hugurinn á fullt í fangi með að meðtaka atburðinn.Vandasamar spurningar vakna, spurningar um rök lífsins, örlög manna og aðferðir Guðs. Aðferðir Guðs gagnvart þeim sem helguðu sig starfi í hans nafni og gáfu allt sitt til. Útdeildu sálu sinni, eins og Jesaja þriðji orðaði það. Sálu sinni, sem þýðir hjarta sínu, huga og vilja.

Lesa áfram„Ólafur Oddur Jónsson, minning“

Minningarorð

Það verður fátt um orð þegar reynt er að setja saman litla grein til að minnast séra Ólafs Odds. Svo skyndilegt og óvænt var fráfall hans að hugurinn á fullt í fangi með að meðtaka atburðinn.Vandasamar spurningar vakna, spurningar um rök lífsins, örlög manna og aðferðir Guðs. Aðferðir Guðs gagnvart þeim sem helguðu sig starfi í hans nafni og gáfu allt sitt til. Útdeildu sálu sinni, eins og Jesaja þriðji orðaði það. Sálu sinni, sem þýðir hjarta sínu, huga og vilja. Það var einmitt það sem séra Ólafur Oddur gerði og helgaði sig því í þrjátíu ár. Í prestakalli þar sem yfirþyrmandi sorgaratburðir reyndu oftar á en víðast annarsstaðar. Og þar komu hæfileikar hans best í ljós.

Hann var meiri sálusorgari en almennt gerist, huggari og hjálpari fólks sem þurfti að binda um óbærileg sár og harm. Hann mætti því með mikilli samúð og kom á tengslum þess við Guð og græðandi orð hans. „Það á ekki að byrgja sorgina inni. Það á að vinna með henni. Það á að gráta. Piltar, þið líka. Þegar harmurinn nístir og engin orð finnast þá segið nafnið Jesús, Jesús, segið Jesús, það þýðir Guð hjálpar.“ Þannig talaði séra Ólafur Oddur til kirkjugesta við útför átján ára pilts sem farist hafði á sviplegan hátt.

Það kom ekki á óvart að við andlát hans kom í ljós að hjarta hans hafði gefist upp, helsjúkt og langþreytt af stöðugu álagi. Hann var aðeins sextíu og tveggja ára.
Sviplegt andláts manns á besta aldri veldur ætíð miklum harmi. Ættmenni safnast saman og reyna að hughreysta hvert annað. Rifja upp góðu dagana og dýrmætu atvikin. Ásta rifjar upp mikla elsku og vináttu við Ólaf Odd í föðurhúsum. Hún leit upp til hans og dáðist að honum. En eins og gengur lengist bilið gjarnan þegar systkini fara að heiman og stofna fjölskyldur og ýmiskonar ólíkar aðstæður verða til. Þannig er lífið.

Með þessum fátæklegu orðum kveðjum við sóknarprestinn í Keflavík, bróður og mág, og vottum sonum hans, Birgi Erni, Ólafi Ragnari og Kristni Jóni, mökum þeirra og börnum, svo og systrunum Bryndísi og Margréti og öðrum vandamönnum, samúð okkar af heilum hug. Einnig Keflvíkingum öllum sem nú sjá á bak úrvalsmanni.

Útför Ólafs Odds verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag. Guð blessi minningu hans.

Ókeypis

Jólin hafa annan blæ þegar náinn ættingi liggur á líkbörunum. Hugurinn leitar til hans aftur og aftur sem og samræðan. Ásta syrgir bróður sinn og rifjar upp atvik æsku þeirra, þau góðu og þau eftirminnilegu. Ættingjar hittast og minnast þess látna. Einnig í símtölum. Og smám saman fær andlátið á sig raunveruleikablæ. Þannig er lífið. Það heldur áfram.

Lesa áfram„Ókeypis“

Háheilagir dagar II

Í framhaldi af pistli 10. desember síðastliðinn. Sjá hér. Á Þorláksmessudag fór Ásta ævinlega upp í Hlaðgerðarkot og undirbjó hýbýlin fyrir jólahátíðina. Þá var jólatré skreytt og ljósum og öðru skrauti komið fyrir. Vistmenn og starfsmenn urðu glaðir í sinni, gengu í lið með Ástu og allir, sem ekki voru veikir, lögðust á eitt til að gera sem best úr hlutunum. Farið var í öll herbergi, setustofu og matsal og komið fyrir skrauti, dúkum og öðru hóflegu skrauti sem minnti á hátíðina.

Lesa áfram„Háheilagir dagar II“

Sorgleg tíðindi

Þau sorglegu tíðindi bárust okkur í gærmorgun að bróðir Ástu, séra Ólafur Oddur Jónsson, sóknarprestur í Keflavík, væri á leið á bráðadeild Landspítalans í Reykjavík, meðvitundarlaus eftir hjartaáfall. Stundu síðar kom tilkynning um að hann hefði látist á leiðinni. Ólafur var aðeins 62 ára og því sviplegt andlát hans reiðarslag fyrir fjölskyldu hans, vini og samstarfsfólk. Hann hafði þjónað söfnuðinum í Keflavík í um það bil 30 ár.

Lesa áfram„Sorgleg tíðindi“

Engjafang

Stundum heyrir maður af íslenskum orðum sem aldrei áður höfðu náð til manns. Sum þeirra búa yfir svo miklum þokka að maður margendurtekur þau fyrir munni sér og hlustar á ytri og innri hljóm þeirra. Þannig urðu viðbrögð mín við orðinu engjafang sem fyrir fáum dögum náði hlustum mínum í fyrsta sinn. Engjafang.

Lesa áfram„Engjafang“

Af aurum og öpum

„Hringlar í skartgripunum.“ Guðmundur Magnússon skrifar Sjónarmið í Fréttablaðið í gær. Millifyrirsögn: „Forseti Íslands býður til „Séð og heyrt veislu“-tónleika.“ Pistill Guðmundar er þörf hugleiðing og ættu sem flestir að lesa hann.

Lesa áfram„Af aurum og öpum“

Háheilagir dagar I

Sál mín og hugur verða gjarnan andlegri á vikunum fyrir jól. Rek ég það til þeirra ára þegar við Ásta veittum Samhjálp hvítasunnumanna forstöðu. Þá helguðum við tilveru okkar skjólstæðingum stofnunarinnar af enn meira afli en á öðrum tímum, nema kannski páskum, sem við ávallt höfum litið sem helgustu hátíð kristninnar. En komum aftur að vikunum fyrir jól.

Lesa áfram„Háheilagir dagar I“

Að biðjast fyrir á gatnamótum

Aftur og aftur upplifi ég það hvað fólk les ritningarnar á mismunandi vegu. Þetta varð mér ljóst strax á fyrstu árum mínum í samfélagi við orð Guðs en það samfélag hefir nú varað í liðlega fjörutíu ár. Það var eins og orðin kæmu til mín á annan veg en margra annarra eða skilningur minn tæki við þeim á annan veg en þeirra. Manna sem þó höfðu helgað sig þeim og létu margir hverjir til sín taka opinberlega á því sviði.

Lesa áfram„Að biðjast fyrir á gatnamótum“

Hænuhaus lesandans

Það var ekki eins mikill vandi að fara í bókabúðir á jólaföstu hér á árum áður þegar maður var og hét. Þegar ég segi var og hét, þá á ég við í fullu starfi hjá verktakafyrirtæki með þokkaleg laun. Þá lét maður ekki verðið á bókunum stjórna innkaupunum. Reyndar urðu þau vísindi happadrjúg að hinkra fram í febrúar, mars og apríl með aðalkaupin, eða jafnvel fram á næsta ár, því þá væru bækurnar teknar að eignast orðspor.

Lesa áfram„Hænuhaus lesandans“