Engjafang

Stundum heyrir maður af íslenskum orðum sem aldrei áður höfðu náð til manns. Sum þeirra búa yfir svo miklum þokka að maður margendurtekur þau fyrir munni sér og hlustar á ytri og innri hljóm þeirra. Þannig urðu viðbrögð mín við orðinu engjafang sem fyrir fáum dögum náði hlustum mínum í fyrsta sinn. Engjafang.

Að sjálfsögðu tók ég strax að fletta upp á því í orðabókum en fann það hvergi. Loks, í orðasafni Orðabókar Háskólans á netinu, finnst það skráð og er þar sagt að það fyrirfinnist eingöngu í bókum Kristleifs Þorsteinssonar, Byggðir Borgarfjarðar.

Magnús Kolbeinsson, ljúflingur og fyrrum bóndi á Stóra-Ási í Hálsasveit, hefur gefið út minningarþætti sína á bók sem ber nafnið Engjafang. Þar segir: „Mér þykir líklegt að þeir séu fáir sem nú eru yngri en fimmtugir sem vita hvað felst í bókarheitinu Engjafang.
Þegar búið var að binda síðustu sáturnar á heybandslestina við heyskaparlok var skilið eftir heyfang við teiginn. Oft mun hafa verið gengið þannig frá því að það myndaði krossmark.
Það átti að tákna þakkarfórn til almættisins fyrir heyfeng sumarsins.“

Hugsunin á bak við engjafangið minnir á reglu sem sett var á dögum Móse um eftirtíning. Í 3. Mósebók 19:9 segir svo: „Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Og eigi skalt þú gjörtína víngarð þinn, né heldur tína upp niðurfallin ber í víngarði þínum. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar.“ Þessi tilmæli eru endurtekin í kafla 3. M. 23:22 og 5. M. 24:19 og 20.

Hugmyndin byggist á velvild. Guð hvetur menn til að sýna örlæti og nauðhirða ekki haga sína. Minnast hinna fátæku og gefa þeim kost á að bjarga sér. Í Rutarbók segir frá því þegar Naomí og Rut komu til Betlehem í byrjun byggskurðar: „Og Rut hin móabítíska sagði við Naomi: „Ég ætla að fara út á akurinn og tína öx á eftir einhverjum þeim, er kann að sýna mér velvild.““ Rut 2:2.

Þótt þessi hugljúfa regla uppi í Borgarfirði um engjafangið hafi ekki miðast við að bæta hag fátæks fólks, þá má sjá að hún var táknræn þakkarfórn til almættisins fyrir heyfeng sumarsins. Fólk reiknaði með Guði og var nægilega stórt í sinni til að sýna honum þakklæti í verki.

Hinn kunni rithöfundur, John Steinbeck, skrifar eftirfarandi, þegar hann segir frá fólkinu, landnemunum í Salinasdal: „…En ég álít, að vegna þess að það treysti á sjálft sig og bar virðingu fyrir sér sem einstaklingum, að vegna þess, að þessar manneskjur vissu það, án nokkurs efa, að þær voru dýrmætar og siðgæðislega máttugar verur, þá gátu þær gefið Guði sitt eigið hugrekki og sitt eigið manngildi og þegið það svo aftur, sem gjöf. Slíkt er nú alveg horfið úr sögunni, kannski vegna þess, að mennirnir treysta ekki lengur á sjálfa sig.“ (Austan Eden. Bls. 18)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.