Ókeypis

Jólin hafa annan blæ þegar náinn ættingi liggur á líkbörunum. Hugurinn leitar til hans aftur og aftur sem og samræðan. Ásta syrgir bróður sinn og rifjar upp atvik æsku þeirra, þau góðu og þau eftirminnilegu. Ættingjar hittast og minnast þess látna. Einnig í símtölum. Og smám saman fær andlátið á sig raunveruleikablæ. Þannig er lífið. Það heldur áfram.

Menn minnast fæðingar frelsarans Jesú um jólin. Að minnsta kosti fram að steik. Og gjöfum. Þannig er þjóðarsálin. Veraldarvafstrið byrgir sýn til ljóss heimsins eins og þegar ský dregur fyrir sól. En margir reikna með að Jesús sé á sínum stað þrátt fyrir allt og að auðvelt sé að grípa til hans ef að þrengir á einhvern hátt. Það er talsverð trúarvissa falin í því.

Og auðvitað er Jesús Kristur á sínum stað. Einhverjir mundu þó vilja spyrja, hvaða staður er það? Ekki þarf að togast á um svar. Það er hægt að lesa sér til í guðspjöllunum fjórum. Þau nægja til svara þar sem þau geyma orð meistarans sjálfs um málið. Þar segir: „Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: „Guðs ríki kemur ekki þannig að á því beri. Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður.““ Lk. 21.

Niðurstaðan er sú að ríki Guðs býr í huga manna. Flestum er ljóst hve mikilvægur hugurinn er í tilveru hvers einstaklings. Og þegar haldin er hátíð til að minnast fæðingar frelsarans, þá er verið að gefa honum rými í huganum. Raunar er þessi ótrúlega hógværi og lítilláti atburður, sem ritningin segir frá um fæðingu Jesú Krists „…vafinn í tuskuræmur og lagður í jötu í gripahúsi…,“ eins ólíkur hinum beljandi niði þjóðlífsins í nútímanum eins og hægt er og því ekki svo auðvelt fyrir fólk að koma auga á kjarna málsins.

Hvað um það. Í þessum málum er hver og einn sinnar eigin gæfu smiður. Þegar þorstinn vaknar þá leita menn svölunar. Ritningin býðst til að svala hverjum þeim sem þyrstir. Með lifandi vatni. Ókeypis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.