Háheilagir dagar II

Í framhaldi af pistli 10. desember síðastliðinn. Sjá hér. Á Þorláksmessudag fór Ásta ævinlega upp í Hlaðgerðarkot og undirbjó hýbýlin fyrir jólahátíðina. Þá var jólatré skreytt og ljósum og öðru skrauti komið fyrir. Vistmenn og starfsmenn urðu glaðir í sinni, gengu í lið með Ástu og allir, sem ekki voru veikir, lögðust á eitt til að gera sem best úr hlutunum. Farið var í öll herbergi, setustofu og matsal og komið fyrir skrauti, dúkum og öðru hóflegu skrauti sem minnti á hátíðina.

Í Þríbúðum hafði Ágúst Ólason frumkvæði um að skreyta salinn. Íbúar Stoðbýlisins hjálpuðu til og var sama sagan þar, barnshjartað vaknaði í fólki og allir nutu þess að taka þátt. Enda áherslan ævinlega lögð á það að salurinn væri fyrir skjólstæðingana. Keypt voru lifandi tré í báða staðina og þau skreytt, jóladúkar settir á öll borð, grenikvistur hér og hvar og staðurinn helgaður jólaboðskap ritninganna. Og væntinga um ljóma dýrðar Drottins.

Þegar aðfangadagur jóla síðan gekk í garð hafði fólk tilreitt hjörtu sín í anda hirðanna úti í haga. Fólk tók að streyma til samkomunnar. Við Ágúst tókum á móti öllum við dyrnar og heilsuðum með handabandi. Innar voru Ásta og aðrir starfsmenn og fögnuðu fólki. Á slaginu klukkan fjögur hófst samkoman með almennum söng.. Að jafnaði stjórnaði Ágúst henni. Setið var í hverju sæti og allir tóku undir í söngnum. Lesið var Guðsorð og farið með bæn. Þá var stutt hugvekja flutt. Loks söngur. Heims um ból.

Við Ásta fórum með vistmönnum í Hlaðgerðarkoti og íbúum Stoðbýlisins upp í kot til að eyða kvöldinu með þeim. Á meðan börnin okkar voru yngri fylgdu þau okkur og tóku þátt. Eftir því sem þau fundu maka og stofnuðu eigin fjölskyldur fækkaði í þeim hópi og þar kom að við Ásta vorum tvö ásamt starfsmönnum á vakt. Klukkan sex var sest að borðum sem hafði verið raðað í langborð svo að nándin yrði meiri en hversdags. Og dúkar yfir öllu. Flestir voru matargestir nokkuð yfir fjörutíu.

Kokkarnir lögðu sig alltaf fram og voru veisluföng yfirleitt glæsileg. Ég naut þeirra forréttinda að fá að þjóna til borðs öll aðfangdagskvöld í þessi 22 ár sem við stóðum fyrir starfinu. Það er kannski yfirlætislegt að segja það, en sjaldan fannst mér ég eins nærri ritningunum og einmitt þegar ég bar diskana, sem kokkarnir höfðu skammtað á, og setti þá hjá fólkinu. Máltíðin samanstóð af forrétti, aðalrétti og eftirrétti sem var gjarnan heimatilbúinn ís og í einni skálinni mandla. Henni fylgdi möndlugjöf eins og á öðrum góðum heimilum.

Að máltíð lokinni kom hlé í liðlega klukkustund á meðan eldhúsliðið tók saman, þvoði upp og gekk frá í eldhúsi og borðstofu. Síðan var hringt til kvöldvöku. Hún var haldin í setustofu í gamla húsinu. Sófum og stólum hafði verið raðað í skeifu, tvær raðir, og sat fólk í hálfhring. Ég sat fyrir miðju og snéri að fólkinu. Byrjað var á því að útbýtta jólapökkum. Hafði ég þann háttinn á að rétta þeim sem næstur mér sat pakka og lét hann pakkann síðan ganga til viðkomandi viðtakanda.

Útdeilt var þrem pökkum til hvers einstaklings. Dorkaskonur útbjuggu tvær gerðir, eina fyrir konur og aðra fyrir karla. Þá var pakki til allra frá Samhjálp. Um nokkurt árbil komu pakkar til vistmanna frá konunum í Kirkjulækjarkoti. Þessu til viðbótar bárust pakkar til heimilisins, jólakort og sælgæti, frá fyrirtækjum og vinveittum einstaklingum. Eitt árið myndbandstæki, annað árið hljómflutningstæki, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar pökkum hafði verið útdeilt, og allir sýnt hvað í þeirra pakka var, kom að jólakortum. Hafði ég sama háttinn á og rétti næsta manni kort og skyldi það sent boðleið frá manni til manns til viðtakanda. Var honum síðan gert að lesa kortið sitt upphátt, áður en næsta kort var sent af stað. Þessi aðferð tryggði að allir væru jafnir, allir fengju sömu athygli og gætu ekki skorast undan. Einstaka maður réði ekki við að lesa og fékk hann þá hjálp við það.

Stundum hafði ég gert texta við fallegt lag sem við höfðum komist yfir einhversstaðar. Settumst við Gunnbjörg þá með gítarana okkar og sungum tvíraddað til að kynna lagið og kenna það og síðan sungu allir með. Mátti oft sjá viðkvæmnina taka völdin hjá fólkinu og tár í auga. Kvöldvakan endaði svo með því að allir stóðu upp, mynduðu stóran hring og tengdust hönd í hönd. Tveir til þrír voru fengnir til að leiða í bæn og loks fóru allir með Faðir vorið.

Við Ásta og fjölskylda okkar komum heim á ellefta tímanum og hófum okkar einkajól. Þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt og fá hlutdeild í háheilagri nærveru Guðs með þeim mönnum „sem hann hefur velþóknun á.“

Óska ég gestum heimasíðunnar gleðilegra jóla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.