Háheilagir dagar I

Sál mín og hugur verða gjarnan andlegri á vikunum fyrir jól. Rek ég það til þeirra ára þegar við Ásta veittum Samhjálp hvítasunnumanna forstöðu. Þá helguðum við tilveru okkar skjólstæðingum stofnunarinnar af enn meira afli en á öðrum tímum, nema kannski páskum, sem við ávallt höfum litið sem helgustu hátíð kristninnar. En komum aftur að vikunum fyrir jól.

Í Samhjálp hafði ég þann háttinn á að biblíulestrar, sem alla vetur í tuttugu ár voru á þriðjudagskvöldum og ég annaðist um, voru á jólaföstunni helgaðir orðum ritninganna um fæðingu frelsarans. Þetta voru afar ánægjuleg kvöld og aðsókn að þeim góð á mælikvarða okkar. Þegar best lét mættu yfir þrjátíu manns með Biblíur, reglustikur, glósubækur og blýanta. Í fimmtudags og sunnudagsamkomum mátti og sjá vaxandi aðsókn sem ávöxt af fræðslukvöldunum.

Efni biblíulestranna var tekið þeim tökum að eftirvænting eftir jólunum og upplifun atburðanna í Betlehem var komin í hámark þegar að jólum kom. Fólk lifði sig inn í atburðarásina, spurði spurninga og leitaði svara við ýmsum þáttum og atvikum og mátti minnstu muna að tungutak þess breyttist í einskonar íslenskt- kaanans afbrigði. Jafnframt myndaðist mikil eining og samstaða í hópnum sem tók þátt.

Á jólaföstunni höfðu Dorkaskonur í umsjón Ástu sitt jólapakkakvöld, en þá voru útbúnir um 400 jólapakkar sem síðan voru sendir í hæli, fangelsi og meðferðarstofnanir. Þá skiptu konurnar sér í hópa, sumar pökkuðu og aðrar skrifuðu á jólakort. Margir vistmanna þeirra stofnanna sem pakka þáðu, vitnuðu um að sá pakki hefði verið eini pakkinn sem þeir fengu um jólin.

Það var síðan stórkostlegt að upplifa aðfangadag. Þá mættu Samhjálparvinirnir í samkomu í Þríbúðum klukkan fjögur. Allir prúðbúnir, allir háttvísir og allsgáðir og gengu með lotningu inn í helgistundina og hátíðina. Vistmenn úr Hlaðgerðarkoti komu einnig og höfðu þeir sem engin föt áttu fengið úthlutað fötum í svokallaðri Bótubúð, en hún var fyrirbæri sem almenningur og fyrirtæki höfðu gefið föt til.

Í samkomulok risu allir á fætur og sungu Heims um ból, hver með sínu nefi og mátti sjá tár viðkvæmninnar blika á hvarmi margra samkomugesta sem og okkar starfsfólksins. Eftir samkomu og faðmlög og innilegar jólaóskir hvarf fólk til síns heima, vistmenn fóru upp í Hlaðgerðarkot og við Ásta og fjölskylda okkar með þeim, hvar við eyddum kvöldinu. Segi ég nánar frá tuttugu og tveim aðfangdagskvöldum okkar með vinunum þar í pistli þegar nær dregur jólum.

2 svör við “Háheilagir dagar I”

  1. Þakka þér Arnbjörn fyrir hlý og falleg orð. Þetta voru góðir dagar og andi Guðs í grennd. Hafðu þökk fyrir orðin þín.

  2. Ég hugsa með hlíhug og þakklæti til þess að hafa verið þeirra gæfu aðnjótandi að fá að dvelja í hlaðgerðarkoti yfir jól með þér og fjölskyldu þinni,Það eru tíu ár síðan þókk sé Drottni. Ég þakka fyrir heimasíðuna og allt kv Arnbjörn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.