Hænuhaus lesandans

Það var ekki eins mikill vandi að fara í bókabúðir á jólaföstu hér á árum áður þegar maður var og hét. Þegar ég segi var og hét, þá á ég við í fullu starfi hjá verktakafyrirtæki með þokkaleg laun. Þá lét maður ekki verðið á bókunum stjórna innkaupunum. Reyndar urðu þau vísindi happadrjúg að hinkra fram í febrúar, mars og apríl með aðalkaupin, eða jafnvel fram á næsta ár, því þá væru bækurnar teknar að eignast orðspor.

Nú hefur nýr vandi tekið algerlega yfir í stjórnun bókainnkaupa í heimilinu. Nú hvorki heitir maður né er, eftir að starfsævi lauk, og verður að vanda sig og beita öllum mögulegum rökum til að kaupa færri bækur en fleiri. Og vanda meira til kaupanna. Tvennt kemur til. Þrengra er um skotsilfur sem og tíma. Það falla samt til, Guði sé lof fyrir það, margskonar rök þeirri aðferð til stuðnings. Ein þeirra náði augum mínum í morgun þegar ég las ritdóm eftir bókmenntafræðing og skáld um bók annars skálds.

Þá hvarflaði að mér sú hugsun hvort ekki mætti reikna með því að skáldin skiptust á jákvæðum ritdómum og væri það tilfellið þá væri nú lítið að marka þá. Það er einnig mikil hjálp í greininni hans Matthíasar Johannessen í Lesbók 3. des., hvar hann bendir á að nú sé hægt að kaupa allt: „…Það er hægt að kaupa allan fjárann, áhrif, aðstöðu, skoðanir. Það er hægt að kaupa lögfræðinga, endurskoðendur, já, hvern ekki?! Það er jafnvel hægt að kaupa fjölmiðla.“

Þetta skrifar Matthías og ég segi bara og tek undir með honum af heilu hjarta og bæti við, því þá ekki einnig rithöfunda og bókadóma og bókmenntaverðalaun. Orð Þrastar Helgasonar, í sömu Lesbók, um bókmenntaverðalaun falla vel að þessari hugsun. Hann segir: „En spurningin er auðvitað alltaf sú hvort þessi verðlaun varpi einhverju ljósi á raunverulegt gildi þeirra bóka sem tilnefndar eru eða falla í þann flokk sem ekki hljóta tilnefningu.“

Fyrr í greininni hafði Þröstur talað um að Íslensku bókmenntaverðlaunin séu lífsnauðsynleg íslenskri bókaútgáfu, þau séu markaðstæki og til þess gerð að selja bækur. Þau ýti undir sölu. Það hringdu bjöllur í kollinum á mér við þessi orð. Ef hinir meiri bókmenntavitar styðja þá aðferð að fjármagnið ausi út skrumi og vafasömu mati á bókum eingöngu til þess að ýta undir sölu, hvaða mark getum við þá almúgafólkið tekið á skrifum þessara sömu bókmenntavita um bækur.

Það er eins og allt beri að sama brunni hjá þessari blessuðu þjóð. Allt snýst um peningana. Og hvar stöndum við nú, þessi óbreyttu, þegar við förum á bókamarkað til að velja okkur bækur? Hvert er raunverulegt gildi bókmennta? Er nokkra trúverðuga leiðsögn að fá? Er ekki reiknað með því að margbrotinn skáldskapur, eins og Guðbergur orðar það „standi fastur í hænuhaus lesandans?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.