Það verður fátt um orð þegar reynt er að setja saman litla grein til að minnast séra Ólafs Odds. Svo skyndilegt og óvænt var fráfall hans að hugurinn á fullt í fangi með að meðtaka atburðinn.Vandasamar spurningar vakna, spurningar um rök lífsins, örlög manna og aðferðir Guðs. Aðferðir Guðs gagnvart þeim sem helguðu sig starfi í hans nafni og gáfu allt sitt til. Útdeildu sálu sinni, eins og Jesaja þriðji orðaði það. Sálu sinni, sem þýðir hjarta sínu, huga og vilja.
Það var einmitt það sem séra Ólafur Oddur gerði og helgaði sig því í þrjátíu ár. Í prestakalli þar sem yfirþyrmandi sorgaratburðir reyndu oftar á en víðast annarsstaðar. Og þar komu hæfileikar hans best í ljós. Hann var meiri sálusorgari en almennt gerist, huggari og hjálpari fólks sem þurfti að binda um óbærileg sár og harm. Hann mætti því með mikilli samúð og kom á tengslum þess við Guð og græðandi orð hans. „Það á ekki að byrgja sorgina inni. Það á að vinna með henni. Það á að gráta. Piltar, þið líka. Þegar harmurinn nístir og engin orð finnast þá segið nafnið Jesús, Jesús, segið Jesús, það þýðir Guð hjálpar.“ Þannig talaði séra Ólafur Oddur til kirkjugesta við útför átján ára pilts sem farist hafði á sviplegan hátt.
Það kom ekki á óvart að við andlát hans kom í ljós að hjarta hans hafði gefist upp, helsjúkt og langþreytt af stöðugu álagi. Hann var aðeins sextíu og tveggja ára.
Sviplegt andláts manns á besta aldri veldur ætíð miklum harmi. Ættmenni safnast saman og reyna að hughreysta hvert annað. Rifja upp góðu dagana og dýrmætu atvikin. Ásta rifjar upp mikla elsku og vináttu við Ólaf Odd í föðurhúsum. Hún leit upp til hans og dáðist að honum. En eins og gengur lengist bilið gjarnan þegar systkini fara að heiman og stofna fjölskyldur og ýmiskonar ólíkar aðstæður verða til. Þannig er lífið.
Með þessum fátæklegu orðum kveðjum við sóknarprestinn í Keflavík, bróður og mág, og vottum sonum hans, Birgi Erni, Ólafi Ragnari og Kristni Jóni, mökum þeirra og börnum, svo og systrunum Bryndísi og Margréti og öðrum vandamönnum, samúð okkar af heilum hug. Einnig Keflvíkingum öllum sem nú sjá á bak úrvalsmanni.
Útför Ólafs Odds verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag. Guð blessi minningu hans.