Tungutal í BYKO

Kom við í BYKO. Á oft erindi þangað. Þó ekki sé nema til þess að skoða nýjungar í verkfærum. Kaupi gjarnan skrúfjárn eða þjöl. Eins og börnin í gamla daga keyptu sér Matchbox bíla ef þeim áskotnuðust fáeinir aurar. Það er afar ánægjulegt. Framleiðendur eru svo elskulegir að hafa tólin í fallegum litum, djúpgrænum, bláum og rauðum. Þau dýrari tekur maður upp og vegur í hendi og mundar, leggur síðan frá sér aftur. Og kinkar kolli.

Eftir hádegi í dag þurfti ég að kaupa nokkrar kapalfestingar, 3 mm. Svartar. Ekki í frásögur færandi. Tilheyrir búskap í smáhýsi. Hafði gengið um og skoðað og notið mín vel. Stóðst mátið að kaupa nýtt verkfæri. Þekki náunga, ágætan kunningja, sem hefur keypt verkfæri árum saman og safnar þeim. Hann er reyndar þannig að hann notar aldrei neitt þeirra. Þykir þau bara svo falleg.

En hvað um það. Fræðimenn hafa verið að gráta yfir tungumálinu okkar og líst illa á heilsufar þess. Sýnist nokkrum þeirra að það verði dáið og grafið eftir svo sem hundrað ár eða svo, og allir farnir að tala tungum annarra þjóða, eða eitthvert alheims grautarmál. Samkvæmt Heilagri ritningu ættu þeir ekki endilega að þurfa að kvíða, því Guð almáttugur á himninum er vís með að grípa inn í slíka þróun og hindra framgang hennar.

Um fordæmi þess má lesa í Fyrstu Mósebók, ellefta kapítula, en þar segir: „Og Drottinn mælti: „Sjá þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta tækifæri þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál.““ Af þessu má draga þá ályktun að menn þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur af þjóðtungunni.

Þegar ég svo hafði, við kassann þar sem ungur piltur afgreiddi, kvittað fyrir úttekt sem sett var á reikninginn minn og sagt takk fyrir, sagði pilturinn stundarhátt: „Bæ, bæ.“ Ég stansaði við, leit fyrst á piltinn og síðan mennina sem voru í biðröð fyrir aftan mig. Hallaði mér því næst að piltinum og sagði með áherslu: „Vertu sæll.“ Honum varð hverft við, stóð upp af stólnum, steig skref aftur á bak og sagði með undrunarsvip: „Ha. Hvað?“ rétt eins og ég hefði miðað á hann skammbyssu og hótað ráni. Ég endurtók því: „Bless, ekki bæ, bæ.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.