Tveir íslenskir nóbelshöfundar

Það eru auðvitað heilmikil tíðindi að íslenska þjóðin skuli í reynd hafa átt tvo nóbelshöfunda. Það er að segja tvo rithöfunda sem báðir voru verðugir nóbels-verðlauna. Því svo er að heyra að það hafi verið stjórnmálaskoðanir þeirra sem skildu á milli. Annar hafi verið kommúnisti en hinn nasisti. Og af tvennu illu hafi kommúnistinn verið skárri kostur. Raunar voru Svíar alltaf talsvert til vinstri.

Hvað um það. Það eru mikil tíðindi fyrir litla þjóð eins og þá íslensku, að tveir rithöfundar skuli á sama tímabili vera taldir hæfir til að hljóta nóbels-verðlaun. Og því ber auðvitað að fagna. Samt sem áður er það ætíð svo að fólk veit aldrei alveg fyrir víst, hvað fram fer á bak við tjöldin, þar sem mennirnir braska. Það sér maður betur og betur með árunum. Og hvað þau orð sem sögð eru opinberlega og birt eru almenningi, eru oft ólíkt sannleikanum, eða staðreyndum hvers máls. Við þekkjum þetta vel úr orðræðu stjórnmálamanna.

Ef litið er á mál þeirra Halldórs Kiljans Laxness og Gunnars Gunnarssonar, og það sem um þau heyrist um þessar mundir, þá sýnist manni, að úr því ekki var hægt að gera upp á milli verka þeirra, hafi menn ákveðið að gera upp á milli persónu þeirra. Þess vegna hef ég verið að velta því fyrir mér hvort það skjóti ekki skökku við, með hliðsjón af þeim skoðunum mikilla fræðimanna um bækur og texta, að höfundurinn eigi að hverfa. Til eru lærðar greinar um „dauða höfundar“.

Maður segir si svona, á góðum degi, vitandi auðvitað að þekking manns er ekki mjög auðug í þessum efnum. Les þó og heyrir sagt að forlög gefi út höfunda, umfram allt, og að markaðurinn kaupi höfunda fremur en bókmenntir. Höfundar séu pússaðir upp í að vera einskonar markaðs „lógó“ og verðleikar þeirra metnir eftir arðsemislíkum. Þetta er auðvitað stórskrítið og klikkað, en einhver mundi segja að svona væri, ekki bara Ísland í dag, heldur heimurinn allur, eða sá hluti hans sem flokkast undir Mammons gróðurríku gresjur.

Þær eru samt ómældar ánægjustundirnar sem bækur þessara miklu höfunda hafa veitt lesendum sínum. Og munu væntanlega gera um ókomin ár, hvað sem dýnamískum verðlaunum líður. Og segi ég því: Til hamingju með tvo nóbles-höfunda, Íslendingar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.