Fannfergi – snjóföl

Það tók mig nokkurn tíma að grípa lýsingu fréttamannsins, í vikunni sem leið, þegar hann talaði um fannfergið í borginni. Ha, hvað er maðurinn að segja? Hverju er hann að lýsa? Hann kallar snjófölina, sem liggur yfir þessa daga í borginni, fannfergi. Hvaða orð skyldi hann nota um það magn af snjó sem árvisst féll á landinu okkar góða á miðri síðustu öld. Það væri fróðlegt að heyra það.

Skömmu fyrir miðja öldina fór bekkurinn minn í Melaskóla í skíðaferðalag upp í Hveradali. Farið var af stað árla. Mikill snjór var. Um hádegi tók enn að snjóa og ákváðu kennararnir að leggja af stað heim nokkuð fyrr en áætlað hafði verið. Þegar við vorum komin inn í rúturnar og þær tóku að mjakast heim á leið, var snjóruðningurinn svo hár beggja megin við bílinn að ekki sást annað út um gluggana en snjóveggur. Þar sem mest var. Þá var tröðin svo þröng að aðeins var hægt að aka í aðra áttina. Ferðin endaði við Múla við Suðurlandsbraut vegna ófærðar í bænum. Þaðan urðum við að ganga á skíðunum vestur í bæ.

Annað minni er frá árunum 1956-1958, þá ýtustjóri hjá Reykjavíkurbæ. Voru allar ýtur Áhaldahússins settar í snjómokstur svo og vegheflar. Í fyrstu yfirferð var ég sendur á gamalli Cletrac vél og látin sjá um Teigahverfið. Til þess að koma henni í gang varð að kveikja eld á kyndli og láta hana soga eldinn inn um soggreinina. En Teigahverfið var mér sérlega ljúft. Tók fólk til þess hvað neðri hluti Hofteigs var vel hreinsaður og því líkast að húsið númer sextán nyti sérlegrar aðhlynningar ýtumannsins. Sem það og gerði. Hún bjó þar stúlka hjarta míns. Fimmtán ára Kvennaskólamær.

Önnur áramót var ég staðsettur í hlíðunum. Þá á einni af stærstu ýtunum, Allis Chalmers. Þá vorum við beðnir um að vinna eins lengi og við héldum út. Mig minnir að það hafi verið þrír sólarhringar án hvíldar. Eitt skiptið höfðu safnast tuttugu til þrjátíu bílar á Hafnarfjarðarveginum á hálsinum þar sem brekkan niður að Þóroddstöðum hófst. Þeir voru á leið niður í bæ og var Hafnarfjarðarstrætisvagn fremstur. Stórhríð geisaði, stormur og mikil ofankoma. Vegurinn niður brekkuna sást ekki fyrir fannferginu. Vagnstjórinn hvatti mig til að gera braut eftir auganu, niður hlíðina, þótt við vissum ekki hvar vegurinn lægi. Hikandi lagði ég af stað og bílalestin fylgdi á eftir. Svona var þetta á þeim árum. Hvað hefði fréttamaðurinn kallað það?

Eitt andsvar við „Fannfergi – snjóföl“

  1. Þegar ég las þinn ágæta pistil kom í huga mér þegar mér þótti dóttir mín full kröfuhörð og alltof ung til að steypa sér í neyslubrjálæðið. Hana vantaði dísel buxur, puma skó og og og… Ég fór að lýsa nægjuseminni sem eineknndi mína æsku: skólaföt, drusuföt og sunnudagaföt. „Ógeðslega hefur verið leiðinlegt þegar þú varst lítil“ voru svör dótturinnar:)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.