Prófessor, prestur og smávaxin kona

Það var fjölmennt í erfidrykkjunni. Salurinn þéttskipaður. Fólk settist við borðin og þáði veitingar. Til að byrja með var kyrrð yfir en síðan tók fólk að lyfta huganum og ræða saman. Eftir nokkurn tíma fylltist salurinn af klið mannamáls. Fólk tók að færa sig á milli borða til að heilsa ættmennum og kunningjum eða safnaðist í hópa. Aftur og aftur heyrðist setning eins og „fólk hittist ekki nema þegar einhver í fjölskyldunni fellur frá.“

Við höfðum fengið sæti fjærst inngöngudyrunum. Þar var ágæt yfirsýn og fylgdumst við með fólkinu heilsast og minnast. Svo kom hann til okkar guðfræðiprófessorinn. Ég stóð upp til að heilsa honum. Prófessorinn er alltaf jafn vingjarnlegur og viðræðugóður. Litlu síðar bættist konan hans í hópinn og fljótlega einn, tveir eða þrír aðrir. Þetta var hámenntað fólk sem talaði fágað og vandað mál.

Hárið á mér hafði verið óstýrilátt, leitaði niður í augu hvernig svo sem ég reynda að knýja það til hlýðni. Tókst að lokum að hemja það með því að festa það með hárspennu. Þetta var gyllt hárspenna. Það þykir ekki karlmannlegt að vera með spennu í hárinu. Það vita flestir og hafði Ásta margendurtekið það og hnippt í mig til að undirstrika það. En ég lét mig ekki. Svo fékk ég á tilfinninguna að hárspennan vekti óþarflega mikla athygli og ákvað að afsaka mig.

Sagði því, um leið og ég bar hönd upp að hárinu, að ég stefndi að því að verða lesbía. Þá sló þögn á hópinn. Síðan hváðu einn eða tveir, aðrir litu á mig stórum augum. Guðfræðiprófessorinn snerist í heilan hring. Leit síðan á mig stórum spurulum augum. Ég endurtók setninguna. Nokkrir glottu. Prestur í hópnum, glæsileg kona á miðjum aldri, sagði: „Þér tekst það ekki með þetta útlit.“

„Útlit,“ hváði ég, „hvað áttu við?“ „Það segir sig nú sjálft,“ svaraði presturinn einarðlega. Smávaxin kona aftast í hópnum færði sig nær og sagðist alveg vita hvernig þetta væri, auðvitað hefði bara eitthvert barnabarnið, lítil og sæt dúlla, verið að punta afa sinn. Þar með hjaðnaði spennan í samræðunum og hópurinn leystist upp.

Skömmu síðar fór ég fram á snyrtingu og skoðaði „þetta útlit“, sem nefnt hafði verið, í stórum spegli. Og tautaði: „Hefði kannski átt að raka af mér skeggið.“

2 svör við “Prófessor, prestur og smávaxin kona”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.