Margir fá frí um páska

Páskarnir nálgast. Margir fá frí og verða sér úti um tilbreytingu af einhverri gerð. Og svo auðvitað páskaeggin. Áætla má að færri hefðu áhuga á pistli sem þessum ef hann hæfist svona: Föstudagurinn langi nálgast. Píslarganga Krists og krossfestingin. Já. Það eru væntanlega ekki margir, nú til dags, sem setjast hljóðir og íhuga þau mál. Nei. því miður.
Og til eru kirkjur sem telja sig kristnar en eru læstar þann föstudag.

Sem betur fer er íslenska þjóðin þannig búin af forfeðrum sínum að trú býr í rótum hennar og á sér bólstað innst inni í huga og sál. Kemur þetta oft í ljós þegar sárar raunir og áföll steypast yfir fólk. Jafnvel hörðustu afneitarar andvarpa til Guðs á slíkum stundum. Og meðtaka nærveru hans. En trúargrundvöllurinn er einmitt byggður á ógnvekjandi atburðum föstudagsins langa, sárum raunum og djúpri þjáningu.

Ýmsar frásagnir Gamla testamentisins sem líkjast atburðum í Nýja testamentinu eru stundum kallaðar forsmekkur eða fyrirboði. Fyrstu kristnu lærisveinarnir notuðu slík dæmi til þess að sýna fram á að Nýja testamentið væri uppfylling Gamla testamentisins. Nútíma biblíuskýringar leggja áherslu á þetta.

Móses leiddi Ísraelsþjóðina út úr þrælahaldinu í Egyptalandi inn í eyðimörkina. Margir dóu þar af höggormabiti. „Þá sagði Drottinn við Móses: „Búðu til höggorm og settu hann á stöng. Sérhver, sem hefur verið bitinn, skal horfa til hans og halda lífi.”” 4. Mós. 21:8.

Með tilvísun í þetta sagði Jesús: „Eins og Móses hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á mannsonurinn að verða upphafinn svo að hver sem á hann trúir hafi eilíft líf í honum.” Jóh. 3:14-15.

„Fyrir hans sár eruð þér læknaðir.” 1. Pét. 2:24.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.