Samhjálp og dagbókin okkar

Við Ásta sátum við horngluggann okkar í morgun, sötruðum sjóðheitt kaffi og fórum yfir atriði afmælishátíðar Samhjálpar sem haldin var með pompi og prakt í Fíladelfíukirkjunni sunnudaginn 23. mars, s.l. Við ræddum meðal annars þel stjórnarmanna safnaðarins sem buðu okkur að koma í samkomuna þar sem þeir vildu heiðra okkur og færa að gjöf konfekt fyrir vel unnin störf í Samhjálp í 23 ár. Hvað við afþökkuðum.

Það eru auðvitað allmerkileg tímamót í stofnun þegar hún nær 30 ára aldri. Og það er enn merkilegra þegar um er að ræða stofnun sem heyrir trúarsöfnuði til. Fáar slíkar hafa náð háum aldri. Það var því aldrei sjálfgefið að Samhjálp hvítasunnumanna næði að lifa af. Upphaf hennar var frumkvæði veikbyggðs einstaklings sem kom frelsaður frá Svíþjóð, haltur á fæti og haltur á sál.

Hann hóf starf til björgunar gömlum vinum sínum, í hópi drykkjumanna, í bílskúr inni á Sogavegi í Reykjavík. Og tók að hlúa að þeim þar. Þetta var upphafið. Samhjálp. Starf, þar sem hugmyndin var að menn hjálpuðu hverjir öðrum til að lagfæra bæklaðan vilja sinn með hjálp Guðs. En upphafið var ekki auðvelt. Svo virtist sem einhverjum sýndist of mikill ljómi stafa af tilburðum halta mannsins.

Eftir einhverja mánuði var gert samkomulag um að starfsemin flyttist inn í Fíladelfíusöfnuðinn í Reykjavík og undir stjórn hans. Var því fagnað af afli með lúðrablæstri og fagnaðarsamkomum. Var frumkvöðullinn, Georg Viðar Björnsson, fyrsti forstöðumaður hins nýja starfs. En undir öllum fagnaðarlátunum tók að bera á tortryggni. Skoðanir voru skiptar um aðferðir og upphófust fljótlega deilur sem síðar enduðu með uppgjöf og niðurbroti Georgs. Á máli trúaðara manna má segja að djöfullinn hafi þá, í öllu sínu veldi, gert sína fyrstu atlögu að starfinu.

Við horngluggann, í morgun, ákváðum við Ásta að fletta dagbókum okkar og birta punkta, myndir og frásagnir á heimasíðu okkar, af því starfi sem við sinntum frá 24. maí 1977 til 31. desember 1999, eða alls í 8.250 daga. Segja frá þeim undrum sem Drottinn framkvæmdi í stofnuninni og hvernig hann jók við hana ár eftir ár þrátt fyrir allskyns atlögur hinna ólíklegustu manna. Hvernig hann sendi byr í svo til hvert einasta segl sem við drógum upp og færði starfið áfram af miklu afli.

Og við urðum sammála um að fólkið sem bar byrðarnar með okkur í þessi 23 ár, ætti skilið að hlutur þess væri nefndur. Sú var nefnilega tíðin að starfið í Samhjálp var barátta upp á líf og dauða. Ekki barátta starfsmanna fyrir sínu eigin lífi, sem gat verið miklu auðveldara utan Samhjálpar, heldur barátta fyrir lífi skjólstæðinga stofnunarinnar sem fæstir virtust eiga marga málsvara, ef þá nokkurn, nema starfsfólk stofnunarinnar.

Óli og Ásta í Þríbúðum

Viljum við segja frá hlut samstarfsfólks okkar, hlut sem réði úrslitum um framvinduna og árangurinn ár eftir ár, og leyfa þeim einstaklingum að njóta sannmælis um leið og við viljum hindra að aðrir freistist til skreyta sig með fjöðrum þeirra. Það kemur ýmislegt á óvart þegar litið er yfir farinn veg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.