Úr gamalli afmælisdagabók

Hvað er fegra en sólarsýn,
þá sveimar hún yfir stjörnurann.
Hún vermir, hún skín
og hýr gleður mann.

Góðar minningar um gamla og slitna afmælisdagabók koma upp í hugann. Eignaðist hana á fyrri unglingsárunum. Hafði sérstaka ánægju af að finna vísuorðin á afmælisdögum þeirra vina sem næst stóðu hjarta mínu. Tala nú ekki um þegar ástin kom í spilið. Þá varð ein blaðsíðan heilög. Háheilög. Í bókstaflegri merkingu. Og vísan á henni lærðist „lesin einu sinni.”

Sum atriði unglingsáranna strjúka svo þægilega um strengi tilfinninganna. Það eru þau atriði sem endurvekja minningar úr því hjartahólfinu hvar ilmurinn er sætastur. Og kærastur. Vinir manns, sem kveiktu þessar tilfinningar, urðu síðan og eru hluti af hjartanu. Hluti af manni sjálfum. Sá hluti sem gerði gönguna bærilega á eggjagrjótinu og samgladdist á grænu grundunum.

Rósavöndur

Vísan hér að ofan er úr gömlu afmælisdagabókinni minni og rósavöndurinn frá því í gær. Segi þetta í tilefni af 10. mars. Svo mikilsverður er sá dagur í lífi mínu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.