Hún er sex mánaða í dag

Það er þannig með blessuð börnin, að á meðan þau eru kornabörn er talað um aldur þeirra í vikum, síðan í mánuðum. Loks verða þau einhverra mánaða gömul, þriggja, fjögurra, fimm eða sex. Þannig er með yngsta barnið okkar Ástu, það er sex mánaða í dag, áttunda mars. Ótrúlegt hvað timinn líður hratt.

Barnið þrífst sæmilega þótt þroskinn sé fremur hægur. Engar tennur komnar enn og fæðið eingöngu mjólk. Meira að segja brjóstamjólk. En börn eru mismunandi fljót til. Eins og við vitum, mörg okkar. Það er þó er gjarnan sagt að þau hafi þroskann frá foreldrunum, hvort sem þau eru bráðger eða treg.

Man eftir konu í sveit. Það var á suðurlandi. Annað barnið hennar var þroskaheft. Líklega er sagt misþroska nú til dags. En móðirin staðhæfði hvar sem hún kom á bæi að barnið væri bráðgert. Sagði hún að það talaði fyrr en önnur börn, gengi fyrr en venja er til og svo framvegis. Þetta voru viðbrögð móðurástarinnar. Konan virtist vilja bæta upp það sem í barnið hennar vantaði. Blessað barnið sem gat svo aldrei talað svo að vel færi.

Í mínu tilviki, þá legg ég ekki í að meta þroska þessa afkvæmis okkar Ástu. Reyni að vera þakklátur fyrir að það hefur náð sex mánaða aldri án þess að mjög verulegir ágallar hafi komið í ljós. Þá hafa og ýmsir vinir orðið til þess að leggja ykkju á leið sína og litið við. Það er svo ánægjulegt og gleður litla lóuþrælshjartað í mér. En barninu er eflaust alveg sama og lætur ekki annað í ljós.

Um tanntöku. Ég minnist þess að mæður, áhugasamar um framgang þroska barna sinna, gáðu að tönnum í munni þeirra með því að strjúka teskeið eftir neðri góminum. Og urðu hróðugar og stoltar þegar tönn svaraði skeiðinni og var unun fylgjast með þeim. En tanntökugráturinn á nóttinni jafnaði þá gleði gjarnan. En það má velta fyrir sér ýmsum hliðum á þessu með tennurnar og hvað þær tákna. Læt lesendum eftir að spá í það.

Það er semsagt heimasíðan sem er sex mánaða í dag. Ekki var útséð á fyrstu vikum hennar hvort henni mundi endast líf. En hún hjarir enn og hefur talsverða ánægju af lífinu. Byggist það að mestu á heimsóknunum sem hún hefur fengið og fær daglega. Og vegna þeirra hefur hún ákveðið að taka á móti gestum allan sólarhringinn eins og hingað til og áframhaldandi.

Vil því segja við þig: „Þakka þér innilega fyrir komuna. Það var ánægjulegt að þú skyldir líta við. Þú ert alltaf velkomin (n).”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.