Hákot, Háborg eða láglendi

„Ertu nú farinn að setja Dolly Parton á netið?“ spurði Ásta þegar hún kom heim úr vinnu í gærkvöldi og kíkti á síðuna mína. „Er það slæmt?“ spurði ég á móti. Hún sagði: „Þú hefðir einhvern tíma fussað yfir slíku uppátæki. Hún var ekki alltaf háttskrifuð hjá þér.“

Nú lá ég í því. Að vera hátt eða lágt skrifaður. Um hvað snýst það? Nýlega sá ég á bloggi mann nefna lágmenningu. Ég staldraði við. Mig minnir að skrif hans hafi tengst atkvæðakeppninni miklu hjá sjónvarpsstöðvunum.

Lágmenning og hámenning. Það er stórt orð Hákot, segir á bók; „Orðatiltækið vísar til þess þegar menn þykja nota of hástemmd lýsingarorð um e-ð, taka of stórt upp í sig.“ Ég minnist þess hvað auglýsing kaþólskra um hámessur fór illa í mig á þeim árum sem ég las guðspjöll Biblíunnar af mestri ástríðu.

Ég sá ekki betur en að meistarinn frá Nasaret helgaði mestan hluta lífs síns fólki sem lakast var sett í tilverunni og að hámessur hefðu knappast náð að anda yl inn í „döpur hjörtu“ þess. En menn eru ævinlega að flokka fólk.Við lesum um stoltan siðapostula sem þakkaði Guði með sjálfum sér að hann var ekki eins og þessi syndugi rukkari sem stóð þarna í grennd við hann.

Til að geta litið niður á aðra verða menn að hefja sjálfa sig upp. Líta stórt á sig sjálfa. Það er annars lærdómsríkt að lesa skýringu Íslenskrar orðabókar á lágmenningu: „lág-menning kvk það sem þykir ómerkilegt eða ófrumlegt í menningunni, einkum það sem stofnað er til með hagnaðarvon að leiðarljósi.“

Það var samt textinn og tónlistin sem ég vildi koma á framfæri í pistli gærdagsins og hefði svo sem getað gert það svona:

„Islands in the Stream, that is what we are…“

Eitt andsvar við „Hákot, Háborg eða láglendi“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.