Guðmundur klatti og borgarfulltrúarnir

Í þá daga var ekkert malbik á götunum á Grímsstaðaholtinu. Og engar gangstéttir heldur. Það voru malargötur sem náðu fast upp að húsunum. Við krakkaormarnir lékum okkur þarna, slógum gjarðir, eða fórum í „standandi tröll“ eða „fallin spýtan“. Oft í „cowboy“ hasar eða skylmingaleiki. Þá var fjör.

Á Fálkagötunni vestan við Smyrilsveg voru gæjarnir öðruvísi en þeir sem áttu heima við Smyrilsveginn og austan hans. En í heildina voru allir svipaðir labbakútar, sex, sjö, og átta ára gamlir. Þó var alltaf einn eða tveir sem skáru sig úr með einstaklingsbundnum sérkennum. Einn af þeim var Guðmundur klatti.

Uppnefnið fékk hann af því að hann kúkaði stundum í buxurnar í miðjum leik. Og hann lét sig hafa það að ganga með kúkinn út leikinn. Þegar hann settist þá skildu allir að í buxunum hafði myndast einskonar klatti úr efninu. Ef hann var með derring og þörf var á að sljákka niður í honum var sungið: Guðmundur klatti, Guðmundur klatti, Guðmundur klatti.

Við Ásta vorum í morgun að ræða um fólkið sem stjórnar Reykjavík um þessar mundir. Svokallaða borgarfulltrúa. Ásta komst þannig að orði að eiginlega væru þeir allir búnir að gera í buxurnar og missa alla virðingu og tiltrú. Og enginn munur á hvar í flokki þau stæðu. Það var þá sem ég sagði henni söguna af Guðmundi klatta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.