Arfleifð Sifjar í Heilbrigðinu

Það er nú einu sinni þannig með okkur eldra fólkið að þegar við upplifum ánægjuleg atvik þá myndast broshúð á sálinni í okkur. Og því var það þannig í desember þegar hjartalæknirinn minn, afskaplega yndislegur maður á sama aldri og ég, hafði farið yfir tékklistann, 135 yfir 85, lungun hrein og

lesið út úr síðustu blóðrannsókn, þar sem sykurinn var góður, skjaldkyrtillinn góður, lifrin fín og psa lækkandi, þá réttir maður úr bakinu og gengur léttari skrefum frá lækninum og hittir stúlkurnar í afgreiðslunni og lætur bóka næsta tíma.

Í miðjum önnum á umsömdum tíma blikkar tölvan og segir „Hjartalæknirinn í fyrramálið.“ Maður baðar sig og snyrtir hátt og lágt og úðar smá til að fyrirbyggja óþægindi í nefi stúlknanna í línuritinu og heldur glaður af stað og læknirinn, afskaplega yndislegur maður á sama aldri og ég, fer yfir tékklistann og allt er gott eins og fyrr.

Að þessu loknu fer maður raulandi lagstúf inni í sér á skrifstofu Tryggingarstofnunar á Dalvegi og leggur reikninginn, kr. 7.280, inn til endurgreiðslu og brosir framan í afgreiðslustúlkuna, sem varla er stúlka lengur, og hún segir: „Þetta verður lagt inn á reikninginn þinn.“

Fimm virkum dögum síðar kemur bréf frá þessum elskum þar sem segir: Reikningi hafnað. „Tilvísun úr gildi.“ Og maður hugsar, hvað vill hún Sif vera að rífa kjaft yfir Guðlaugi. Eru þau ekki öll eins. Níðast á gömlu fólki?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.