Franskur maður stelur brauði

Það hljóp heldur betur á snærið í nostalgíukastinu í gærkvöldi, þegar danska sjónvarpið Dk.1 sýndi mynd Bille August´s, Vesalingarnir, eftir skáldsögu Victors Hugo, með Liam Neeson og Geoffrey Rush í aðalhlutverkunum.

Í lok myndarinnar hvolfdust yfir minningar frá fyrra lífi, þegar bækur Victors Hugo rak á fjörurnar. Fyrst var Vesalingarnir, í þýðingu Ólafs Þ. Kristjánssonar, yndisleg bók og grípandi, bók þeirrar gerðar sem maður leggur ekki frá sér fyrr en við bókarlok.

Næst kom Maríukirkjan, í þýðingu Björgúlfs Ólafssonar, sagan af hringjaranum Quasimodo og tatarastúlkunni Esmeröldu, og loks Maðurinn sem hlær um Ursus og Homo; „Ursus var maður, Homo var úlfur. En þeir áttu ágætlega saman.“

Margar persónur þessara bóka eru ógleymanlegar og hafa lifað með manni í gegnum lífið. Eru sumar þeirra eins og raunverulegir einstaklingar í vinahópnum. Jean Valjean, Cosette og Javert í Vesalingunum, hringjarinn Quasimodo og tatarastúlkan Esmeralda í Maríukirkjunni og loks Ursus og Homo, í Manninum sem hlær.

Franski rithöfundurinn og skáldið Victor Hugo heyrist ekki oft nefndur þessi árin. Þó eru sum verk hans sígild og hafa náð mikilli útbreiðslu og væntumþykju lesenda. Victor Hugo, 1802 – 1885, samdi ljóð, leikrit og skáldsögur.

Læt ég fylgja hér tilvísun í eldri pistil um upprifjun á heimsókn okkar Ástu í hina stórkostlegu kirkju Notre-Dame de Paris.

Eitt andsvar við „Franskur maður stelur brauði“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.