Fils de pasteur á Boulevard Montparnasse

Ekki kemst ég hjá því að bæta nokkrum orðum við fyrri skoðun mína á bók Sigurðar Pálssonar, Minnisbók. Tók ég þannig til orða að mér fyndist texti hennar gisinn, en mildur og mjúkur. Þá var ég kominn aftur í miðja bók op hugðist hvíla mig um sinn á svipaðan hátt og Sigurður gerði þegar hann las eina blaðsíðu í bók á fljótabátunum og lagði hana síðan frá sér. Frjáls og óháður. Og lærði þannig að meta Thor Vilhjálmsson, meðal annarra.

Það fór þannig fyrir mér að þegar ég tók til við bók Sigurðar aftur þá greip hún mig á allt annan hátt en áður. Kemst ég ekki hjá að segja að seinni hluti hennar er aldeilis bráðskemmtilegur. Textinn þéttist að mun og ástríðan vex. Eiginlega gat ég ekki lagt bókina frá mér fyrr en í lokin.

Þarna koma til sögunnar kunnir rithöfundar, málfræðingar og heimspekingar og ótal skondnar frásögur sem kalla fram þennan ósegjanlega blæ sem gerir bækur góðar. Það er mjög lærdómsríkt að fylgjast með prestsyninum koma sér fyrir í Frakklandi og ekki síst í hinni stórkostlegu París og takast á við tungumálið og makalaust nám. Bókin breytist úr bók í góða bók.

En ég átta mig samt ekki alveg á því hvernig hægt er að vera langdvölum í sjálfri París án þess að ástin skipi stóran sess í frásögn af dvölinni. En þar skjátlaðist mér. Síðasti kafli bókarinnar er hrífandi ástarsaga um ekkju Picassos, Jacqueline. Þar segir m.a.:

„Þarna bjó Jacqueline og dýrkaði Picasso,hún gekk um húsið og talaði við hann,arinhillurnar í hverju herbergi voru eins og altari með mynd af honum, hún sá um að þar væru ævinlega fersk blóm í vösum eftir meistarann. Eitt sinn heyrðum við að hún var í næstu stofu að rífast við hann. Þegar hún kom inn til okkar afsakaði hún sig, sagðist hafa verið að skamma Pablo fyrir að hafa yfirgefið sig.
-Og hvernig tók hann því?
-Hann hló, sagði hún, hálfvandræðaleg.“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.