Púkinn og páskaeggin

Hafði áætlað að baka í dag. Kraftbrauð og hveitibollur til að eiga yfir páskana. Þegar til átti að taka vantaði mig hveiti og gul epli. Eplin fara í kraftbrauðin ásamt sveskjum og sólblómafræi, sesam, hörfræi og fleiru. Svo rak ég augun í tómatpúruna. Hún þarf alltaf að vera til. Þetta var í Nettó á Salavegi.

Ég sótti mér einn svona glæran aumingjapoka eins og eru við kassana í búðunum og taldi 15 tómatpúrudósir í hann. Þær geymast vel og maður er alltaf að nota þetta. Stóð mig að því um daginn að ætla að útbúa pitsu og þá vantaði mig púru. Svo kom ég að kassanum og verslunarstjórinn var á honum. Við erum orðnir málkunnugir og tölum stundum um veðrið. Já, og verðið.

Það lá vel á stráknum og hann sagði við mig glaðbeittur:
„Þú kaupir alltaf öðru vísi en aðrir. Mér finnst það svo skemmtilegt.“
„Kannski er ég pínulítið skrýtnari en aðrir.“
„Það finnst mér ekki,“ sagði hann og bætti við: „En má ég spyrja hvað þú gerir við alla þessa púru?“
Þá hljóp púkinn í mig, leit ég djúpt í augu unga mannsins, alvarlegur á svipinn og sagði fullur af trúnaðartrausti:
„Páskaegg. Vinur. Ég nota hana í páskaegg.“ Svo flýtti ég mér út.
Hann starði enn á eftir mér þegar ég var kominn út í bíl og bakkaði frá versluninni.

2 svör við “Púkinn og páskaeggin”

  1. Þette var þér líkt! Góður! sé fyrir mér svipinn á stráknum. Kær kveðja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.