Þjóðargjöf til Íslendinga

Ákvað í gær að nýta þjóðargjöfina frá bókaútgefendum. Tilefnið var frétt í Mogga um ljóðabók eftir Stanley Kunitz sem Hallberg Hallmundsson snéri úr ensku, eins og segir á bókarkápu. Hallberg var tilnefndur til þýðingarverðlauna. Annars er ég hættur að kaupa bækur. Hef ekki efni á því. Dett þó íða stöku sinnum. Tók með mér þúsund krónu gjöfina.

Það er stutt niður í Smáralind heiman að frá mér. Til þess að gera. Fór þar inn í bókabúð Eymundsson. Hún er gríðarstór og lofar góðu. Gekk að kassa innarlega í búðinni. Þar var ung falleg stúlka að verðmerkja barnabækur. „Báturinn langi,“ sagði ég, „áttu hana. Það er bók?“ Stúlkan, fremur fríð og þokkafull, sagði langt haaaaa? og snéri sér að tölvunni. Fletti upp og niður. „Nei. Því miður. En hún er til á Akureyri.“

„En Barndóm. Það er líka bók. Er hún til?“ Stúlkan fletti að nýju í tölvunni, upp og niður. „Nei, því miður.“ „Af hverju eru þær ekki til?“ spurði ég og reyndi að þykjast brosa. „Ég bara veit það ekki,“ sagði stúlkan og horfði framan í mig. Ég horfði á móti alllanga stund, þögull. „Hvað með Játningar?“ spurði ég loks. „Láru miðils?“ hrópaði stúlkan sigri hrósandi. „Nei, nei, nei,“ svaraði ég að bragði, „ekki Láru miðil, uss, uss, uss, Ágústínusar.?“

„Því miður,“ sagði stúlkan og nú var farið að myndast persónulegt samband á milli okkar. „Hvernig bækur lest þú gæskan?“ spurði ég hana, föðurlega. Þá leit hún svo yndislega beint inn í augun í mér og sagði með fallegu vörunum sínum, stolt: „Spennubækur.“ Þetta var í gær um miðjan dag.

Í morgun, – það er merkilegt hvað dulið álag getur knúið mann og verkað á vald og vitsmuni – ók ég niður í Kringlu, ætlaði að skoða fimm lítra pott fyrir Litlatré í leiðinni, og spurði greindarlegan ungan mann sem stóð við kassann í Eymundsson: „Báturinn langi, það er bók, er hún til.“ Ungi maðurinn tók smá sveiflu með olnbogunum, sagði tvö eða þrjú ha og sökkti sér loks í tölvuna. „Nei. Hún ætti samt að vera til.“ „Ég veit að hún er til á Akureyri,“ sagði ég með rönd af háði í röddinni. „Ég ætlaði einmitt að fara að segja það,“ sagði ungi maðurinn. Ég keypti ágætan pott á leiðinni út.

Næst fór ég í Hallarmúla. Penninn Eymundsson. Niður í kjallara mættu mér þessar elskulegu konur á miðjum aldri eða tæplega það. Ég kaus að tala skýrt og sagði því: „Ég er að leita að bók sem heitir Báturinn langi. Er hún til hér.“ Önnur konan hljóp af stað vestur eftir búðinni. „Það er ljóðabók,“ kallaði ég á eftir henni. Hún færði sig um tvö bil og leitaði í hillunum. Allt í einu kallaði hún fullum hálsi: „Bogga, Báturinn langi, viltu gá í tölvuna?“

Áður en Bogga svaraði reis fyrri konan upp og sagði hárri röddu: „Báturinn langi, hér er hún.“ Svo gekk hún til mín með bókina og rétti mér. Það mátti engu muna að ég yrði skotinn í konunni. „Þú ert æðisleg,“ sagði ég, „nú vantar mig bara Barndóm.“ Þriðja konan hafði nú bæst í hópinn. Hún kom að utan og var í kápu. Gekk rakleitt að litlu borði með bókum á og tók upp eina. „Hér er hún,“ sagði sú. Nú urðu allir kátir við og ég tók að þvaðra við konurnar og þær við mig og við vorum sammála um allt. Helmingurinn af þjóðargjöfinni fór í bensín.

Þegar heim kom hringdi síminn. Sonur vinar míns hringdi til að segja mér að aðgerðin á föður hans hefði gengið að óskum. Þeir höfðu greint hnefastórt æxli í höfðinu á honum og skáru hann í dag. Vinurinn hringdi í mig í gærkvöldi og sagði mér frá alvöru málsins og nefndi við mig að biðja fyrir sér og aðgerðinni og læknunum. Það hefur knúið mig í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.