Í brjósti manns

Bókahillur geta glatt fólk, og felst gleðin sem af þeim hlýst í því að í þeim finnast stundum bækur sem minnið hafði ekki á hraðbergi. Og það vekur hljóðláta ánægju þegar fingur leiðir augun og finnur bók sem taldist til vinar, vinar sem ekki var sinnt um alllangt skeið vegna framhleypni nýrra vinda sem léku á leið sinni hjá.

Snorri Hjartarson, skáld, hefði orðið hundrað ára 22. apríl síðastliðinn. Greint hefur verið frá því. Hann fæddist á Hvanneyri en flutti síðar að Arnarholti í Stafholtstungum með foreldrum sínum og varð þar með félagi og vinur fólksins á næsta bæ, sem er Hlöðutún. Í Hlöðutúni bjuggu hjónin Brynjólfur og Jónína, afi og amma Ástu, en pabbi hennar og systkini hans voru einmitt börnin í Hlöðutúni. Tvö ljóða Snorra hér að gefnu tilefni:

Í GULNUÐUM REYNI

Í gulnuðum reyni sat þröstur
og söng út í logngrátt rökkrið
flaug upp og stráði
laufum af grannri grein

steig eins og lítill fönix
úr fölskvuðum eldi haustsins
hvarf inn í brjóst mitt
og syngur þar dægrin löng.

EINN

Yfir lágum þökum
er himinninn hár

Og reikir þú einn
um ókunna borg
langþráða borg
þá láttu þig ekki dreyma
nálægð né svar

ekki fremur þar
en heima.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.