Sjö föstudagar í viku VI

Þegar við Ásta komum til eyjunnar Patmos, um árið, þá var klaustrið, sem þar er efst uppi á fjalli, lokað annan daginn sem við stöldruðum við, því þá var fótaþvottadagur. Þetta vakti okkur til umhugsunar um mismunandi viðhorf í trúarhreyfingum þar sem stoltið virðist skipa hæsta sessinn víðast hvar þar sem við þekkjum til. Þó hafði meistarinn sagt við lærisveina sína: „Ég hef gefið yður eftirdæmi.“

Sérstakur þokki er yfir þessum dögum í guðspjöllunum. Kristur er með lærisveinum sínum og ræðir við þá á annan hátt en áður. Hann sýnir þeim inn í ýmsa leyndardóma trúarinnar og gefur þeim ný boðorð. Samvera þeirra er þrungin af væntumþykju: „Hann stóð upp frá kvöldmáltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig.“ Og við Pétur sagði hann: „Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna munt þú skilja það.““

Dymbilvika hefst á pálmasunnudag. Hún er einnig nefnd kyrravika eða hljóðavika. Dymbill var trékólfur sem settur var í kirkjuklukkur í stað málmkólfs, til þess að draga úr hvellandi hljómi þeirra. Einnig klæddu menn málmkólfa með tré eða öðrum efnum til að draga úr hvellandi hljómi þeirra. Trúað fólk les gjarnan textana sem segja frá þessum dögum og helgar hug sinn og hjarta og leitast við að draga úr sínum eigin hvellandi hljómi. Dymbilvika endar laugardaginn fyrir páska. Laugardagur er hvíldardagur Gamla testamentisins.

Hvíldardagur kristinna manna er sunnudagur. Hann er dagur Drottins. Fyrsti dagur vikunnar samkvæmt sköpunarfrásögunni. Og upprisudagur frelsarans. Þann dag sagði Guð í upphafi: „Verði ljós!“ Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur.““ Sunnudagar eru mikilvægir í Biblíulegu samhengi, þar sem þeir eru bæði dagar ljóssins og upprisunnar.

Pistlar þessarar viku hafa verið tileinkaðir föstum. Þeim hugleiðingum lýkur með þessum pistli, í dag, föstudag.

Eitt andsvar við „Sjö föstudagar í viku VI“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.