Vitringar og spakir menn sem lögðu líf sitt og ævistarf í að rýna í helgar bækur, fundu út að undir þeim textum sem við þeim blöstu á keflunum mátti finna aðra og dýpri meiningu orðanna. Vakti þetta áhuga þeirra og ástríðu svo að þeir nýttu hverja stund til að kryfja táknin og rannsaka leyndardómana. Sýndist þeim að forfeður þeirra hefðu búið svo um að aðeins væri á færi innvígðra að lesa út úr „hinum huldu“ rúnum.
Einn af þessum innvígðu meisturum, sem uppi var um það bil á miðju tímabili milli Móse og Krists, þóttist sjá að í framtíðinni mundu þeir atburðir verða sem við nútímamenn þekkjum allvel sem frásöguna af Jesú frá Nasaret. Þessi innvígði meistari spáði því að fram mundi koma maður „sem rótarkvistur úr þurri jörð.“ En rótarkvistur er sá viðarteinungur sem nær það djúpt niður í jarðveginn að hann fær þar bæði vökva og næringu sem þarf til að vaxa og laufgast.
Þurra jörðin er sá tíðarandi sem lifir og hrærist á yfirborðinu og hefir ekki djúpar rætur. Eða með öðrum orðum, hefir ekki næga þekkingu á textunum til þess að skilja hvert hið raunverulega markmið Guðs í himninum er. Fyrrnefndur innvígður meistari sá meira í textunum en aðrir og spáði í framhaldi af því að fram mundi koma maður sem uppfyllti þessi skilyrði og hann skrifaði um hann m.a. á eftirfarandi hátt:
„ […] hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn. […] Fyrir hans sár urðum vér heilbrigðir […]
Atburðirnir sem þjóðir minnast á næstu dögum, dymbilviku og páskum, eru einmitt þeir sem spáð var fyrir um og rættust með komu Krists Jesú til manna. Hundruðum ára síðar. Eru þeir afar verðmætir og einkum fyrir fólk sem leitast við að þrýsta rótum sínum dýpra niður í jarðveg speki og þekkingar á huldum leyndardómum tilverunnar. Sem og þeirra „sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda.“