Sjö föstudagar í viku II

Það segir frá því að þegar páskar Gyðinga nálguðust, fóru margir úr sveitinni upp til Jerúsalem til að hreinsa sig. Það er athyglisvert orðalag. Margir fóru til að hreinsa sig. Það leiðir hugann að því að sá sem vill hreinsast hefur gert sér grein fyrir því að hann er ekki hreinn. Sú niðurstaða sýnir að þessir mörgu hafa skoðað inn í eigin hug og samvisku og fundið út að þar mætti eitt og annað betur fara.

Jóhannes skrifar þetta. Kjarni málsgreinarinnar er samt sá að prestar og farísear höfðu gefið út skipun um það, að ef nokkur vissi hvar Jesús væri, skyldi hann segja til, svo að þeir gætu tekið hann. En þeir voru ráðnir í að taka hann af lífi. Það er líka fróðlegt að lesa hvað það var sem fékk þá til þess að vilja lífláta hann. Lesum:

„Margir Gyðingar, sem komnir voru til Maríu og sáu það, sem Jesús gjörði, tóku nú að trúa á hann. En nokkrir þeirra fóru til farísea og sögðu þeim, hvað hann hafði gjört. Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.““

Það virðist sem eigingirni og afbrýðisemi hafi yfirtekið hjörtu trúarleiðtogana sem máttu horfa á það að miskunnarandi Guðs var með Jesú í verki. Hann fór um og hjálpaði þeim lægst settu til að rétta úr boginni sál og bognum líkama. Andi trúarleiðtoganna var andi lagabókstafs og reglna. Hann var miskunnarlaus og dómsorð hans ískalt: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Kristur kom að málum frá öðru sjónarmiði. Hann sagði: Maður, mistök þín eru þér fyrirgefin.

Það er því verðug spurning á þessum dögum föstunnar hvorum flokknum fólk vill fylgja. Staldraðu við og aðgættu hvað hugur þinn og hjarta segja.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.