Sjö föstudagar í viku I

Um þessar mundir eru allir dagar föstudagar. Það er að segja, þeir snúast um föstur. Þá leitast þeir sem trúa á Jesúm frá Nasaret, við að opna huga sinn og nálgast orð ritninganna um markmið föstudagsins langa. Og hver sem það prófar mun ósjálfrátt ganga hljóðlegar um í dagsins önn og finna sér hljóðláta stund. Hann mun fara afsíðis, draga skó af fótum og krjúpa. Og andvarpa. Því að hver sá sem þáði mola af brauði þess dags hlýtur að upplifa lotningu og einlægt þakklæti.

Dagarnir sem í hönd fara eru þrungnir af frásögnum ritninganna af göngu mannsins Jesú í átt til krossins á Hauskúpu. Þrungnir af átökum manns sem glímir við eigið sjálf og kall Guðs um huggun, friðþægingu og smyrsl fyrir brotna og brákaða menn. Viðkvæman reyr sem í öllum kynslóðum vex og baslar. Skref fyrir skref gekk þessi Jesús í átt til krossins, þögull eins og lamb á förgunardegi.

Þungur harmur hvíldi yfir andlitinu. Með fjarrænu augnaráði mændi hann til hinna mörgu sjúku sem lágu við laugarnar í borginni og vonuðu á bata fyrir töfra og þjóðsögur. Nú verða það ekki orðin tóm. Nú verða það máttur og afl þess anda sem Guð blés í nasir hinum fyrsta manni svo að hann varð lifandi sál. Fullsköpuð sál. Nú verða til dyr sem standa öllum mönnum opnar.

Hægum dagleiðum gekk hann leiðina. Við fylgjumst með honum. Leitumst við að opna huga okkar og nálgast orð ritninganna um markmið föstudagsins langa. Stillum sjálfselsku okkar og eigingirni í hóf fram að föstudeginum langa. Minnum okkur á að við viljum vera trúað kristið fólk.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.