Ég elska þig

Í grein í síðustu Lesbók vitnar höfundur hennar í orð félaga síns sem sagði: „það er ekki hægt að segja þetta „eðlilega“ á íslensku, það virkar „asnalegt“, mikið betra að segja það á ensku.“ Vangaveltur eins og þessi fá mann til að hugsa hversu asnalegur maður hefur þá verið síðustu fimmtíu ár, að hafa ekki sagt: „I love you, Ásta.“

Í fyrrnefndri grein er svo vitnað í pistil kvikmyndaáhugamanns sem spyr: „Er íslenskan ónothæf á kvikmyndaforminu, eru Íslendingar ómögulegir í að skrifa eðlileg samtöl eða eru íslenskir leikarar ófærir um að fara með saminn texta á tilgerðarlausan og lágstemmdan hátt.“ Gerir kvikmyndaáhugamaðurinn loks samanburð og segir að jafnvel einfaldasta setning eins og „ég elska þig“ verði þunglamaleg í samanburði við hið léttleikandi flæði enskunnar þegar sagt er I love you.

Það kemur í hugann hvort leyndardómurinn um hina miklu meintu yfirburði enskunnar felist ekki í því að auðveldara sé að ljúga á ensku. Og vandi íslenskra leikara felist í því að þeir eigi erfitt með að tjá skáldaða elsku af þeirri einlægni sem þarf til til þess að hljómur orðanna verði ekki holur. Jónas hafði annað viðhorf í þessum málum sem sjá má m.a. á fyrsta erindi í kvæðinu Ásta:

Ástkæra, ylhýra málið,
og allri rödd fegra,
blíð sem að barni kvað móðir
á brjósti svanhvítu,
móðurmálið mitt góða,
hið mjúka og ríka,
orð áttu enn eins og forðum
mér yndið að veita.

Eitt andsvar við „Ég elska þig“

  1. takk fyrir áhugaverða síðu.

    Er vandamálið við ástarjátninguna ekki að við heyrum þessa setningu oftar á ensku en íslensku.
    „I love you“ ómar úr sjónvarpinu á hverju kvöldi
    en við elskum fólkið okkar upphátt bara spari

    b

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.