Um aldamótin síðustu urðu fyrirferðamiklar umræður í fjölmiðlum um það hvenær ein öld endaði og næsta hæfist. Munaði heilu ári á skoðunum fólks um málið. Var með nokkrum ólíkindum að fylgjast með því hvernig hinir mætustu menn gátu helt sér út í þrasið og orðið orðhvassir í málflutningi sínum.
Siggi símastaur, sem var fremur einfaldur maður, hafði verið vistaður á bóndabæ vegna erfiðleika hjá foreldrum hans. Á bóndabænum sinnti hann störfunum sem aðrir vildu vera lausir við. Sigga hafði verið sagt, í upphafi útlegðarinnar, að eftir tíu ár mætti hann koma heim aftur. Hann hugsaði mikið um það og hlakkaði til þess allan tíman. Þar af leiðandi vildi hann sjálfur finna út úr því hvenær þessum tíu árum lyki og hann mætti fara heim.
Hann náði sér í tvo tommustokka. Opnaði þá báða og lagði á borð í skemmunni. Enda við enda. Fyrri tommustokkinn, þann sem til vinstri var, kallaði hann A en hinn kallaði hann B. Nú færði hann fingurinn eftir tommustokknum A, sem var til vinstri og taldi, 96, 97, 98, 99, 100. Þar endaði A. Þá fór hann með fingurinn yfir á stokkinn B sem byrjaði strax við endann á A, og byrjaði að telja: 1, 2, 3, 4, 5 og svo. frv.
Niðurstaðan Sigga var sú að annaðhvort væri fingurinn á tommustokk A eða tommustokk B. Og þegar A væri búinn þá væri hann búinn og B tæki við. Þegar tíunda árinu lyki þá hæfist nýtt tímabil og hann mætti fara heim. Með þessa niðurstöðu fór Siggi inn í bæ með báða tommustokkana og sagði við húsbændurna: „Það eru komin tímamót. Ég er farinn heim“. Og svo hló hann og hló, skelli – skellihló, eins og hver einasta kelling í Kátir voru karlar. En það hafði hann ekki gert í tíu ár.