Á fallegum degi

Og hún sagði: „Þú ert eins og níræður karl.“
Hann sagði: „Er ég hvað?“
Hún sagði: „Eins og níræður karl, illa til fara.“
Hann sagði: „Hvað áttu við, kona?“
Hún sagði: „Þú ert í ljótum fötum, óhreinum og púkalegum.“
Hann sagði: Hverslags árás er þetta, á að brjóta mig niður núna?“

Hún sagði: „Þetta er svona. Það er alltaf erfitt að fá þig til að skipta um föt.“
Hann sagði: ,,Hvað stendur nú til?“
Hún sagði: ,,…og alls ekki hægt að fá þig til að kaupa, ekki einu sinni skyrtu.“
Hann sagði: „Er þetta ekki orðum aukið?“
Hún sagði: „Nei, þú hefur ekki keypt þér fat svo mánuðum skiptir.“
Hann sagði: „En mér finnst allt í lagi með mig. Kannski svolítið krumpaðar buxurnar.“
Hún sagði: „Þær eru ljótar og þú ert eins og níræður karl til fara.“
Hann sagði: „Ég er þó ekki farinn að pissa í mig ennþá.“

Annar þáttur

Hann sagði: „Hvernig viltu að ég sé klæddur, manneskja, þú varst með mér í að kaupa þessar buxur. Ég keypti meira að segja tvennar.“
Hún sagði: „Það eru meira en tvö ár síðan.“
Hann sagði: „Meira en tvö ár? “
Hún sagði: „Já, meira en tvö ár, og sniðið er ljótt.“
Hann sagði: „Er nú sniðið orðið ljótt allt í einu?“
Hún sagði: „Já. Og þú hefur aldrei farið úr þeim.“
Hann sagði: „Nei, heyrðu nú, kona.“
Hún sagði: ,,Það er ekkert að heyra.“
Hann sagði: ,,Og hvað viltu að ég geri í þessu?“
Hún sagði: „Komir með mér að kaupa buxur á þig.“
Hann sagði: „Aldrei tala ég neikvætt um þig eða þín föt.“
Hún sagði: „Farðu í gráu fötin og svo förum við í bæinn eftir vinnu.“
Hann sagði: „En þau eru of þröng.“
Hún sagði: „Þú getur sjálfum þér um kennt.“
Hann sagði: „Sjálf getur þú verið níræð.“

Þriðji þáttur

Hann sagði: „Manstu þegar við vorum í Stokkhólmi um árið og fórum í stóru fatabúðina?“
Hún sagði: „Það eru 12 ár síðan.“
Hann sagði: „Eru tólf ár síðan?“
Hún sagði: „Já. Ertu að reyna að breyta um umræðuefni?“
Hann sagði: „Nei, ég geri aldrei svoleiðis.“
Hún sagði: „Farðu í gráu fötin og hittu mig eftir vinnu.“
Hann sagði: „Sástu afsláttinn á grillkjötinu í Mogganum í morgun?“
Hún sagði: „Læt ekki plata mig.“
Hann sagði: „En það er svo gott grillveður.“
Hún sagði: „ Gráu fötin, vinur.“
Hann sagði: „Hvað ertu annars komin mikið yfir nírætt?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.