Einkennileg bókamerki

Veitti því ekki athygli fyrr en í morgun hvað bókamerkin mín eru einkennileg. Það kom til af því að í vinnuherberginu mínu er oft dálítil óreiða og ég þurfti að finna skjal eða minnisblað sem hafði grafist undir hinum ýmsu bókum sem ég er að grauta í. Og til þess að finna minnisblaðið varð ég að stafla bókunum sem eru í lesningu. Þá tók ég eftir bókamerkjunum.

Í Zaraþústru er innheimtuseðill frá Bóksölu stúdenta. Í Ástarspekt, gíróseðill frá Biblíufélaginu, í Miklum heimspekingum Bryan’s Magee’s er póstkort með mynd af Vitu Sackville West, Kona með rauðan hatt, í Hið fagra er satt er minnisblað um Jóhann og Huldu á Akureyri, í Árbók bókmenntanna er gíróseðill frá Félagi eldri borgara. Tilboð um frosna fiskbita og humar af millistærð frá Skagfirsku söngsveitinni er í Matthíasi Johannessen, og Brugervejledning fyrir trådlös telefon í Snjórinn í Kilimanjaro.

Í gær, – í döpru hugarástandi einn á ferð, var ég svo lánsamur þegar ég fór í kjallarann í Pennanum í Hallarmúla, eftir að hafa farið þar um hillur og borð og skoðað og lesið á titla og verð, – rakst ég á bók eftir Schlink. Ástarflótti heitir hún. Schlink þessi er höfundur bókarinnar Lesarinn sem kom út í syrtlu árið 1998 og ég les reglulega. Ástarflótti er í kiljuformi og kostar aðeins kr. 1295. Ég hlakka til að lesa hana og ætla að setja í hana nýtt bókamerki, póstkort með málverki eftir Rubens.

Á málverkinu er Cimon, dóttir Péturs postula, í heimsókn hjá föður sínum í fangelsinu og gefur honum brjóst til að viðhalda þreki hans. Myndina vel ég til að undirstrika hvað bækur eru góðir vinir og nauðsynlegir og næra huga manns og sál þegar einsemd og einfaldleiki frábrugðinna daga sækir að.

En fólk hefur mismunandi sýn á verðmæti tilverunnar. Góð vinkona mín sendi mér einhverju sinni pésa með ráðleggingum um líkamlega hreyfingu með aðaláherslu á göngur. Á pésann hafði hún skrifað „Gerðu það einu sinni á dag.“ Á næsta afmælisdegi hennar sendi ég henni bók eftir James Joyce og skrifaði í hana „Gerðu það einu sinni á dag.“ Við höfum hvorugt farið að tillögu hins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.